tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.
Frú forseti. Hér er um mikilvægt frumvarp að ræða sem við sem sitjum í samráðshópi um Grindavík fengum einmitt að líta á áður en það var lagt inn í samráðsgátt og lagt fram hér á þingi. Við áttuðum okkur á því, rétt eins og hefur verið bent á, að hér væri það nú sennilega þannig að ekki væri hægt að ná utan um alla og það væru göt í þessu frumvarpi sem þyrfti að skoða betur. Það er mjög ánægjulegt að sjá að efnahags- og viðskiptanefnd hefur verið öll samhljóma í þessari vinnu sem er mjög mikilvægt og það er verið að hlusta á hvert annað og það er gott framhald af því sem við höfum séð gerast í samráðsnefndinni um Grindavík. Ég var líka ánægður að heyra hér áðan hv. þingmenn Teit Björn Einarsson og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur horfa á athugasemdir með mjög opnum huga og vera tilbúin að breyta og ég styð tillögu hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um að málið sé tekið örstutt inn í nefndina. Það er meiri bragur á því að þetta sé gert af nefndinni frekar en að einhver einstaklingur, formaðurinn eða einhver, leggi fram breytingu. Það sýnir áfram þann samhug sem við öll hér inni höfum í þessum málum og það mun ekki tefja frumvarpið um nema svona tvær mínútur, myndi ég halda. Ég vona að hv. þm. Jón Gunnarsson muni ekki ásaka mig um málþóf þó að það væru tvær mínútur. (Gripið fram í.) — Örugglega, það er tvöfalt meira heldur en var í fundarstjórn forseta í morgun.
Varðandi rekstrarstuðning þá er hann að vissu leyti byggður á þeirri reynslu sem kom af rekstrarstuðningnum á tímum heimsfaraldursins. Það var ánægjulegt á fundum okkar uppi í fjármálaráðuneyti þegar samráðshópurinn var að hittast þar að það var meira að segja tekið tillit til athugasemda Pírata sem höfðu verið gerðar við heimsfaraldursfrumvörpin. Það var tekið tillit til þeirra við gerð þessa frumvarps. Mér þótti það svo merkilegt að ég fór og kynnti þingflokknum mínum það, að það hefði nú bara verið hlustað á okkur. Það er bara nákvæmlega eins og við eigum að gera þetta, það eiga að koma góðar hugmyndir frá öllum og á að taka tillit til þeirra.
Það sem er líka mikilvægt hérna er að við erum að leiðrétta hluti, við erum að reyna að smíða hlutina betur og betur en það er mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því þegar kemur að þessum tímabundnu frumvörpum sem við erum að semja núna vegna náttúruhamfaranna í Grindavík, sem að vissu leyti eru fordæmalausar aðgerðir, að við erum að skapa fordæmi. Við erum að skapa fordæmi fyrir því hvernig tekið verður á náttúruhamförum og afleiðingum þeirra í framtíðinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lagði til áðan, að það sé haldið áfram með þessa vinnu, það sé farið í það að skoða hverjir detti á milli í þessu og hvernig við getum lagað það. Það er stór spurning uppi með atvinnuhúsnæðið. Það kom fram í fréttum í morgun að niðurstöður úr jarðsjám sem búið er að fara yfir sýna að t.d. iðnaðarhverfið austan megin við höfnina er mjög illa farið og það er spurning hvaða áhrif það hefur fyrir þá sem vilja vera með rekstur áfram. Það er líka samspil á milli ef þú ert með atvinnuhúsnæði og með íbúðarhúsnæði. Annað færðu bætt en ekki hitt. Þetta eru allt hlutir sem við þurfum að vinna í á næstu mánuðum, það er mjög mikilvægt þegar við erum búin að taka þessi fyrstu skref sem við erum að taka núna. Um leið og við erum búin með þau, þá þurfum við að halda áfram. Við þurfum að reyna að hugsa í lausnum, sérstaklega þegar kemur að þeim sem falla á milli í þessum lögum. Við erum búin að heyra nokkur dæmi. Við þurfum að fylgja því eftir og skapa lausnir fyrir þá sem falla á milli og við þurfum síðan að taka þessa vinnu áfram. Það verður kannski ekki fyrr en á næsta kjörtímabili en ég hvet hv. þingmenn sem ná kjöri á næsta kjörtímabili að taka reynsluna úr þessu og búa til frumvörp sem virkjast þá þegar svipaðar hamfarir verða og neyðarástand skapast.
Við erum að leggja hér fram og samþykkja frumvarp um rekstrarstuðning mörgum mánuðum á eftir — þeir eru kannski ekki nema þrír, fjórir en í huga Grindvíkinga eru þeir búnir að vera í óvissu í marga mánuði. Ef það er eitthvað sem við þurfum að læra af þessum náttúruhamförum þá er það að við þurfum að eyða óvissunni strax. Við getum gert það með því að nýta reynsluna af þessu í frumvörp og lagaumgjörð sem tekur strax utan um samfélög eins og Grindavík þegar — ég segi ekki ef því það mun gerast, því miður, svona mun gerast þegar þú býrð í landi eins og Íslandi þar sem náttúran fer með miklu meiri völd heldur en nokkurn tíma sú ríkisstjórn sem situr hverju sinni. Þegar hún ræður þurfum við að búa okkur undir það. Við þurfum að átta okkur á því hver kostnaðurinn er við að gera það. Hver er kostnaðurinn við að byggja upp þjóðarsjóð eins og stundum hefur verið nefnt? Við þurfum að eiga fjármagn til þess að tækla svona lagað, við þurfum að hugsa út í það hvernig við ætlum að fjármagna slíkt. Við munum ræða það þegar kemur að uppkaupum á húsunum seinna í dag.
Það er mikilvægt fyrir okkur að hugsa ekki bara um þessar stuttu tímabundnu aðgerðir sem við erum að gera núna vegna þess að við verðum að vera tilbúin miklu, miklu fyrr. Ef það er sú arfleið sem Grindvíkingar koma með hingað inn, að við sem þjóð verðum betur undirbúin undir að takast á við svona náttúruhamfarir í framtíðinni, að taka betur utan um fólkið og fyrirtækin sem verða fyrir náttúruhamförum, þá höfum við unnið vinnuna okkar. En þangað til skulum við halda áfram að læra, skulum halda áfram að hlusta á athugasemdir eins og hefur verið gert hér, sem ég verð að fagna virkilega. Það er ánægjulegt að stjórn og stjórnarandstaða vinna hér sem eitt. Það gerist því miður allt of sjaldan hér inni en þegar það gerist þá ber því að fagna og það geri ég.