154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:53]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls í þessari umræðu og ekki síst framsögumanni málsins. Þetta er afskaplega mikilvæg umræða og þó svo að hér sé um afmarkað mál að ræða þá tengist það auðvitað öllum í Grindavík. Hér er í grunninn um að ræða mikilvægt mál sem er partur af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í kjölfar alvarlegrar stöðu í Grindavíkurbæ vegna náttúruhamfara. Frumvarp þetta snýr að því að veita stuðning þeim rekstraraðilum sem voru með starfsemi í Grindavík á þeim tíma sem rýma þurfti bæinn, 10. nóvember síðastliðinn, og urðu fyrir verulegu tekjufalli þar af.

Rekstrarstuðningurinn er í formi beinna styrkja úr ríkissjóði, ekki ósvipað og gert var í heimsfaraldrinum og þessi stuðningur, virðulegi forseti, skiptir mjög miklu máli. Eðli málsins samkvæmt er um að ræða fjölbreytta starfsemi og fjölbreytt rekstrarform, hvort sem um er að ræða atvinnurekstur eða sjálfstætt starfandi aðila í Grindavík. Allir þessir aðilar eiga það sameiginlegt að rekstrargrundvöllur þeirra stendur vægast sagt á brauðfótum um þessar mundir og þurfa á aðkomu ríkisins að halda, sérstaklega í ljósi þeirrar óvissu sem einkennir jarðhræringar nú um stundir á Reykjanesskaga í heild.

Það liggur fyrir að atvinnurekendur eiga mjög erfitt með að færa starfsstöð sína og laga starfsemi sína að þeim aðstæðum sem blasa við og er ætlun þessa frumvarps að reyna að taka á því að einhverju leyti. Eins og við Íslendingar vitum mætavel þá stjórnum við ekki náttúrunni. Um allt land búa Íslendingar við þá staðreynd að allt getur gerst þegar að henni kemur. Því er það grundvallarmál að við getum brugðist við í þágu þeirra sem verða fyrir tjóni af sökum náttúruhamfara og að samfélagið allt og stjórnvöld taki höndum saman til að styðja við bakið á þeim eins og mögulegt er sem í því lenda.

Á tímabilinu frá 10. nóvember síðastliðnum til dagsins í dag hefur öll starfsemi raskast vegna jarðhræringa í Grindavík og einnig þeirra eldgosa sem hafa orðið á tímabilinu. Það er mikil óvissa sem ríkir um framhaldið og algerlega óvíst hvort hægt sé að koma atvinnustarfsemi í Grindavík á réttan kjöl á næstu misserum.

Það er ekki með nokkru móti hægt að setja sig í spor Grindvíkinga eða þeirra rekstraraðila sem þar hafa starfað. Ríkisstjórnin hefur brugðist við og gripið til ýmissa aðgerða til að mæta stöðunni eins og rætt hefur verið um á Alþingi og samþykkt hér á undanförnum mánuðum. Má þar auðvitað nefna stærri framkvæmdir til að mæta ógn af náttúruvá eins og varnargörðum en síðan þeim þáttum sem snúa að tímabundnum stuðningi, til að mynda varðandi greiðslu launa. Rekstraraðilum hefur verið gert heimilt að sækja um greiðslufrest á staðgreiðslu og tryggingagjaldi og álag á vangreiddan virðisaukaskatt er fellt niður.

Þetta mál er auðvitað bara eitt af fjölmörgum úrræðum sem við erum að vinna og reyna að klára til handa Grindvíkingum og stuðningurinn er margþættur og það er flókið viðfangsefni, enda eru rekstraraðilar mismunandi eins og áður kom fram og óvissuþættirnir þar af leiðandi líka mjög misjafnir. Ég tel þetta frumvarp vera jákvætt skref í þá átt að styðja rekstraraðila í Grindavík en ég vænti þess að við munum einnig halda áfram að reyna að mæta stöðunni. Vil ég þá helst nefna vinnu sem ég tel að sé algerlega nauðsynleg til að mæta lögaðilum í Grindavík varðandi húsnæði.

Ég vænti þess að þetta frumvarp verði að lögum í dag. Um það ríkir mikil eining og ég fagna sérstaklega því þverfaglega samstarfi sem hefur átt sér stað við ráðuneyti og alla þá aðila sem hafa veitt því umsögn en ekki síst þeirri pólitísku samstöðu sem hefur myndast um málið og reyndar heilt yfir þeirri pólitísku samstöðu sem hefur ríkt um málefni Grindvíkinga eftir að jarðhræringar hófust þar 10. nóvember. Það er Alþingi til sóma og það er líka heiður að vinna með fólki þvert á flokka, taka mið af fjölbreyttum sjónarmiðum sem þar koma fram, ekki síður en þeim sjónarmiðum sem koma fram úti í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Fyrir upphaf jarðhræringa á Reykjanesskaga var blómlegt og öflugt atvinnulíf í Grindavík. Alls starfaði 2.841 í sveitarfélaginu fyrir rúmlega 200 rekstraraðila að meðtöldu sveitarfélaginu sjálfu, íþróttafélögum og stéttarfélögum. Það er að sjálfsögðu grátlegt að sjá allt það tjón og tekjutap sem hefur orðið í svo kröftugu og öflugu sveitarfélagi. Afleiðingunum verðum við að mæta og taka þau verkefni föstum tökum sem blasa við. Við getum dregið úr þeirri óvissu sem íbúar og rekstraraðilar í Grindavík lifa við á þessum erfiðu tímum þó að við eyðum aldrei óvissunni fullkomlega. Við þurfum því að halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð og ég tek undir með hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni að sú vinna sem hefur farið fram nú þegar og verður unnin hér á næstu mánuðum þarf að gefa tóninn um það hvernig við ætlum sem samfélag að takast á við að reyna eftir fremsta megni að bæta tjón sem náttúruhamfarir kunna að valda, ekki bara í Grindavík eða á Reykjanesskaga heldur á Íslandi til framtíðar.

Ég vil að lokum þakka nefndinni fyrir gott samstarf og ekki síst þeim aðilum, þeim gestum, sem komu fyrir nefndina til að bera fram sín sjónarmið.