154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:06]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að eiga orðastað við mig um þetta. Eins og gefur að skilja hef ég sjálfur átt töluvert mikil samskipti við atvinnurekendur í Grindavík allt frá því að þessar náttúruhamfarir hófust og reyndar fyrir 10. nóvember einnig vegna þess að það gleymist oft í umræðunni að þetta ferli sem við erum í, þessi atburður, þó svo að 10. nóvember hafi markað okkur mjög mikið, hófst auðvitað löngu fyrr. Ég vil bara benda á að við höfum átt samskipti og fengum til skrafs og ráðagerða atvinnuteymið í Grindavík. Ég tek undir með hv. þingmanni að þar kemur fram skýrt ákall sem ég held að sé mikilvægt að mæta, einnig bara milliliðalaust á fundum sem maður hefur svo blessunarlega haft tækifæri til þess að sækja. Þar hafa komið fram mjög mörg sjónarmið hjá mjög fjölbreyttum hópi atvinnurekenda og það hefur verið minn skilningur að það ríki mikið þakklæti hjá þeim fyrirtækjum í garð stjórnvalda varðandi þau úrræði sem gripið hefur verið til. Á sama tíma vænta þau þess að við séum á ákveðinni vegferð sem muni smátt og smátt, að eins miklu leyti og mögulegt er, eyða þeirri óvissu sem blasir við. Ég held að það sé mikilvægt að við höldum áfram á þeirri vegferð. Þetta frumvarp sem við ræðum hér er einn partur af því en í mínum huga er það sannarlega ekki það síðasta sem við þurfum að grípa til. Við þurfum einmitt að halda áfram á þeirri vegferð í góðu samstarfi og samtali við fyrirtækin sem koma til með að þurfa á þeim stuðningi að halda.