154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Undir þetta álit skrifa allir hv. þingmenn efnahags- og viðskiptanefndar. Mig langar að byrja mál mitt, líkt og margir aðrir hafa gert, á að þakka fyrir vinnuna og samstarfið í nefndinni. Það er auðvitað frábært þegar við getum náð saman og að við leggjum okkur eftir því að gera það.

Þetta frumvarp um tímabundinn rekstrarstuðning er eitt og sér auðvitað bara eitt púsluspil inn í þann nauðsynlega og mikilvæga stuðning sem við hér á Alþingi höfum verið að vinna að og samþykkja á síðustu dögum og vikum. Þetta er einungis eitt skref af mörgum. Það eru mál sem við höfum áður samþykkt sem skipta líka máli, svo sem lög um frestun opinberra gjalda, stuðningur vegna greiðslu launa, sértækur húsnæðisstuðningur og breyting á lögum um tekjuskatt sveitarfélaga, bara til að nefna hér eitthvað, og á eftir ætlum við að ræða mun stærra mál sem snýr að kaupum á húsnæði einstaklinga.

Það sem mér finnst mikilvægt og við gerðum hér í vinnu nefndarinnar var þar sem við tókum mið af sjónarmiðum sem komu fram og erum að lengja hér í ýmsum dagsetningum. Ég held að það sé mikilvægt og gott því að eins og hefur auðvitað komið fram og við vitum öll þá eru atburðir enn í gangi. Því miður veit enginn alveg hvað gerist næst eins og er þegar um náttúruhamfarir er að ræða en ekki síður erum við líka að skýra og taka af vafa um það hvernig hlutir eigi að rekast saman, til að mynda hvernig rekstrarkostnaður sé reiknaður út og samspil rekstrarstuðnings og launa. Þetta skiptir allt saman máli og ég held að við séum sammála um að sé allt til mikilla bóta.

Hér fyrr í umræðunni var bent á að það færi betur á því að hnika til dagsetningu vegna ákvæða um arðgreiðslur. Mér finnst þetta góð ábending og tel hana ekki flókna í rauninni í framsetningu og vænti þess að hún komi hér fram annaðhvort undir umræðunni eða síðar.

Ég vil að lokum bara þakka fyrir umræðuna hér og endurtaka það að þetta frumvarp eitt og sér er auðvitað ekki hægt að líta á sem þann stuðning sem verið er að veita almennt og koma til móts við þær hrikalegu aðstæður sem íbúar í Grindavík standa frammi fyrir heldur er þetta partur af stærri heildarmynd og að sjálfsögðu munum við hér eftir sem hingað til fylgjast með þróun mála og sjá hvað hvaða aðstæður koma upp og hvernig við getum brugðist við þeim. Það er nauðsynlegt að gera í ástandi eins og þessu. Þessari vinnu verður bara að halda áfram og henni verður að vinda fram líkt og náttúruhamförunum vindur fram.