154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði um að þetta væri eitt af mörgum málum sem eru fyrir þinginu vegna aðstæðnanna í Grindavík og hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson talaði um áðan hvernig það væri smám saman verið að vinna upp í þetta púsluspil. Ástæðan fyrir því er að einhverju leyti skiljanleg; það er óvissuástand. En bæði í Covid-ástandinu og núna var maður alltaf að hvetja stjórnvöld til að taka ákvarðanir af því að ákvörðun stjórnvalda, sérstaklega til lengri tíma en bara nokkurra mánaða, eyðir óvissu. Óháð því hvernig málin þróast þá er bara búið að taka ákvörðunina. Við erum að taka ákveðna stefnu, við erum að taka ákveðin skref. Þau eru tekin. Öryggi fólks er tryggt, sérstaklega ef málin þróast á verri veg því að það er alltaf það sem er síðan verst: Hvað ef verri sviðsmyndin raungerist? Þá þurfum við að hlaupa upp til handa og fóta hérna í þinginu og bregðast við því í staðinn fyrir að það sé bara búið að taka ákvörðunina og við stöndum við hana. Það eyðir óvissunni. Það er alveg erfitt að taka svoleiðis ákvörðun en bæði í Covid og, að mér er finnst, líka í þessu ástandi núna þá hafa stjórnvöld verið dálítið sein til þessarar ákvarðanatöku. Þegar það er loksins búið að taka ákvörðun, sem er yfirleitt eftir að eitthvað hefur gerst, höfum við alveg verið fljót að hlaupa til og klára, sem er bara mjög jákvætt og mjög mikill stuðningur hjá öllum þingheimi hvað það varðar — en það er einmitt ekki fyrr en eftir að búið er að taka ákvörðun. (Forseti hringir.) Það hversu langur tími líður fram að því að ákvörðun er tekin er það sem ég á í erfiðleikum með.