154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að þau frumvörp sem ég nefndi hér áðan um ýmiss konar stuðning við Grindavík fór ég bara með eftir minni þannig að hér er ekki um einhvern fullkominn eða tæmandi lista að ræða heldur var þetta nefnt í dæmaskyni um það sem hefur verið gert.

Frú forseti. Svo langar mig að segja að mér finnst í þessum andsvörum hér kannski aðeins verið að búa til pínulítið meiri, ég ætla ekki að segja ágreining heldur svona blæbrigði um það hversu hratt málin koma og hversu lengi úrræði eigi að gilda. Mér hefur fundist vera samhugur í vinnunni um að það sem við viljum gera er að skapa fyrirsjáanleika í aðstæðum þar sem við vitum ekki hvað gerist næst. Ég hef ekki upplýsingar um það hvar sú vinna er stödd sem varðar til að mynda mál sem snúa að húsnæði lögaðila. Ég veit það bara ekki. En líkt og við höfum rætt um í efnahags- og viðskiptanefnd þá telur nefndin öll það mikilvægt að við höldum áfram að fylgjast með og fylgja þessum málum eftir og ég hef fulla trú á því að það muni nefndin gera.