154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það var samstaða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd um þetta nefndarálit og þær breytingartillögur sem því fylgja um frumvarp um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavík. Það var góð samvinna í nefndinni bæði um þetta frumvarp og einnig um frumvarpið um uppkaup á íbúðarhúsnæðinu. Þetta frumvarp hefur það markmið að hægt sé að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi í fyrirtækjunum í Grindavík þrátt fyrir þessar náttúruhamfarir og að fyrirtækin geti varðveitt viðskiptasambönd og hafið starfsemi á ný með stuttum fyrirvara.

Við fengum mjög margar góðar umsagnir og ég vil hér vitna í umsögn atvinnuteymis Grindavíkurbæjar. Þau segja í sinni umsögn að frumvarpið sé jákvætt skref þó að þau vilji gera ákveðnar athugasemdir. Þau benda á í þessari umsögn að þau vilji að rekstrarstuðningurinn geti farið í að greiða laun, að rekstrarstuðningur komi ekki til útreiknings tekjufalls og að gildistími laganna verði lengri. Nefndin tók tillit til allra þessara athugasemda því það voru færð góð rök fyrir þeim. Nefndin tók einnig tillit til athugasemda frá Skattinum sem voru bara mjög góðar, kjarnaði vel athugasemdirnar og þær hjálpuðu okkur við að gera skýrar breytingartillögur. Atvinnuteymi Grindavíkurbæjar segir að þrátt fyrir það að þetta skref sé jákvætt þá sé jafnframt þörf fyrir frekari aðgerðir sem geri fyrirtækjum í Grindavík kleift að lifa af, eftir atvikum með því að laga sig að því erfiða ástandi sem nú ríkir eða með því að flytja starfsemina á annan hentugan stað. Þau vona að þetta frumvarp sem við ræðum hér sé bara hluti af heildstæðum aðgerðum. Verkalýðsfélag. Grindavíkur er með svipaða athugasemd, þ.e. það gerir ekki athugasemd við þetta frumvarp, um tímabundinn rekstrarstuðning, en leggur áherslu á að tíminn sem gefist eftir samþykkt þessa frumvarps verði nýttur til að taka stöðuna og taka stefnu til lengri tíma til að eyða þeirri óvissu sem mögulegt er fyrir launafólk og fyrirtæki til lengri tíma. Þetta er afskaplega mikilvægt og hefur einnig komið fram í ræðum hér fyrr í dag og einnig í andsvörum.

Ég vil, frú forseti, með leyfi forseta, vitna áfram í umsögn atvinnuteymisins. Þar segir:

„Atvinnulíf í Grindavík hefur verið blómlegt undanfarin ár. Þar er öflugur rekstur fyrirtækja í sjávarútvegi auk þess sem þróast hefur öflugur iðnaður tengdur sjávarútvegi. Ferðaþjónusta er einnig sterk á svæðinu. Verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið er sennilega hvergi meiri en í Grindavík eða um 3% af landsframleiðslu, þótt þar búi aðeins 1% þjóðarinnar. Á árinu 2022 voru 144 fyrirtæki með árlega veltu umfram 5 millj. kr. Samtals veltu þessi fyrirtæki ríflega 72 milljörðum kr. það ár. Þá eru fjölmörg fyrirtæki með höfuðstöðvar annars staðar á landinu með starfsemi í og við Grindavík og fyrirtæki í Grindavík veita hundruðum manna með búsetu utan sveitarfélagsins atvinnu. Áhrif þeirra erfiðleika sem fyrirtæki í Grindavík ganga í gegnum vegna náttúruhamfara ná þannig langt út fyrir sveitarfélagið.“

Þetta þurfum við auðvitað að hafa í huga þegar við erum að reyna að meta ástandið. Það eru ekki bara bein áhrif á fyrirtækin í Grindavík heldur eru áhrifin á fleiri stöðum og neikvæðar aukaverkanir út fyrir Grindavík. En ég held áfram að vitna í umsögnina, með leyfi forseta:

„Atvinnuteymi hefur rætt frumvarpið og áherslur í þessari umsögn við samráðshóp fyrirtækja í Grindavík. Einnig var frumvarpið rætt á opnum fjarfundi með fyrirtækjum í Grindavík. Jafnframt hafa fyrirtæki sent atvinnuteymi ábendingar um atriði sem lúta að frumvarpinu.

Eðli máls samkvæmt eru fyrirtækin ólík, bæði hvað varðar stærð og starfsemi, og sjónarmið geta því verið ólík. Aðstæður fyrirtækja eru því afar mismunandi.“

Síðan kemur upptalning sem ég held að sé rétt að ég fari yfir og við hv. þingmenn gefum gaum.

„Mörg fyrirtæki í Grindavík geta fært hluta starfsemi sinnar annað. Þjónusta við útgerð og fiskvinnslu er sterk í bænum. Sum þessara fyrirtækja geta þjónustað útgerð annars staðar í landshlutanum og hafa gert um langt skeið. Það sama verður ekki sagt um öll fyrirtæki. Þannig verður rekstur gistiheimilis í Grindavík illa fluttur annað. Öll viðskipti slíks fyrirtækis byggjast á að gist sé í Grindavík. Nokkur dæmi eru um verktaka sem voru með íbúðarhúsnæði í byggingu þegar náttúruhamfarir urðu. Þær eignir eru óseljanlegar og falla ekki undir ákvæði frumvarps um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

Ofangreind dæmi undirstrika að áhrif náttúruhamfaranna birtast fyrirtækjum með afar mismunandi hætti. Í ábendingum frá fyrirtækjum er annars vegar fjallað um hvernig úrræði frumvarpsins gagnist fyrirtækjum og hins vegar hvers konar önnur aðstoð myndi gagnast fyrirtækjum.

Vert er að undirstrika að samhljómur er mikill um að það sem gagnist fyrirtækjunum best er að skapa forsendur til þess að þau geti haldið áfram rekstri, annaðhvort með því að aðlaga reksturinn að aðstæðum í Grindavík, sem flestum hugnast best, eða flytja starfsemina á annan hentugan stað. Þörf er á að líta til lengri tíma með stuðning við fyrirtæki í Grindavík. Markmiðið þarf að vera að fyrirtækin lifi af þær hremmingar sem fylgja náttúruhamförum á svæðinu og þeim aðgangstakmörkunum sem ríkið hefur sett.“

Frú forseti. Annars staðar í umsögninni er fjallað um óvissuna og hún er sannarlega mikil. Það er vitnað í að íbúum Grindavíkur verði boðið tilboð um uppkaup á heimilum sínum, verði það frumvarp að lögum, og að atvinnurekendur vilji gjarnan geta staðið frammi fyrir slíku vali einnig á atvinnuhúsnæðinu. Myndu mörg fyrirtæki eða fyrirtækjaeigendur kjósa sömu úrræði en margir eru hins vegar ákveðnir í því að halda áfram og berjast til þrautar í Grindavík. En svo er, eins og fram kom í andsvörum hér áðan, ýmis þjónustustarfsemi sem hefur enga forsendur til að starfa áfram í Grindavík þegar íbúar eru fluttir á brott. Nefnd eru bakarí, hárgreiðslustofur og veitingastaðir.

Þess vegna, frú forseti, er afskaplega mikilvægt, um leið og við tökum þetta jákvæða skref sem þverpólitísk samstaða er um, að við hugsum til framtíðar, setjum niður skipulag um á hverju við getum tekið strax vegna þess að við vitum hreinlega hver staða fyrirtækjanna verður næstu tvö árin eða svo og síðan hvað við myndum gera og teikna upp ákveðnar sviðsmyndir þannig að við séum svolítið tilbúin þegar að því kemur. Við séum ekki, líkt og við gerðum allt of oft í heimsfaraldri, að bregðast hratt við aðstæðum sem lömdu okkur í andlitið. Við þurfum að læra af þeirri reynslu. Það er sagt að Íslendingar séu mjög góðir í viðbragði og að standa saman og græja og gera eins og dæmin sanna en við séum ekki góð í að plana til lengri tíma. En við þurfum að læra það. Það væri þjóðinni hollt.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Mér fannst mikilvægt samt að draga fram það sem er sameiginlegt með mörgum eigendum fyrirtækja í Grindavík og benda á að það er ekki hægt að finna eina lausn sem hentar öllum, þó að þessi tímabundni rekstrarstuðningur komi sér vel eftir þær breytingar sem náðist samkomulag um í efnahags- og viðskiptanefnd.