154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir góða ræðu. Það var tvennt sem mig langaði að fá að spyrja hv. þingmann um vegna þess að nú sátum við saman og sitjum enn saman í samráðsnefndinni um Grindavík en eftir að frumvarpið fór þaðan þá fór það inn í efnahags- og viðskiptanefnd og hv. þingmaður situr þar. Það eru tvö atriði sem mér finnst hafa verið svona gegnumgangandi í gegnum margar ræðurnar núna. Annars vegar er það atvinnuhúsnæðið og hvernig það tengist heimilum og slíku. Hins vegar hefur komið fram hér í umræðunni þetta með aukna kostnaðinn fyrir þá sem eru að reyna að halda úti starfseminni einhvers staðar annars staðar. Við höfum kannski ekki verið með nógu mikla umræðu um hvernig verið er að styðja við fólk þar. Mig langaði að heyra hvort þessi tvö mál hefðu verið sérstaklega mikið rædd innan nefndarinnar eftir að frumvarpið kom inn í þingið miðað við þær umræður sem við áttum áður en það kom til þingsins.