154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið og gott að heyra að það eru miklar umræður innan nefndarinnar. Ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann algerlega á höfuðið hér áðan þegar hún nefndi að við þurfum að fara að taka umræðu og ákvarðanir um framhaldið. Það eru ýmsar sviðsmyndir. Já, það getur byrjað að gjósa í dag, kannski kemur það í miðri kjördæmaviku, kannski eftir kjördæmaviku, hver veit.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um í seinna andsvarinu er: Nú erum við að ganga þetta jákvæða skref sem er mikil samstaða um en hvaða skref telur hv. þingmaður að séu mikilvæg þegar kemur að stuðningi við fyrirtækin? Hver eru næstu skrefin sem við þurfum og verðum að byrja að ræða strax eftir kjördæmaviku til þess að þegar ástandið breytist, þegar eitthvað gerist, við séum ekki alltaf langt á eftir hér í þinginu að koma með svör? Við verðum að fara að hugsa fram í tímann. Alla vega verðum við, hvort sem við erum tilbúin með frumvörp eða eitthvað, að vera búin að ræða þessa hluti vegna þess að bara umræðurnar taka sinn tíma og það er betra að vera búin að taka þær fyrr en seinna. Þannig að seinni spurningin mín er: Hvaða atriði verðum við að taka strax í umræðu um leið og við erum búin að samþykkja þetta?