tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.
Frú forseti. Jafnvel þó að ég hafi sagt sem svo að það hafi heilmikið verið rætt um þessi málefni í nefndinni þá hefðum við náttúrlega þurft miklu lengri tíma. Við notuðum þann litla tíma sem við höfðum til að ræða þetta frumvarp, hafa það eins vel úr garði gert og mögulegt var, tókum tillit til athugasemda, fengum góðar athugasemdir og settum fram breytingartillögur sem ég held að séu allar til bóta. Það var reyndar unnið svo hratt að við gleymdum að athuga með tímasetninguna á arðgreiðslunum en það verður lagað á milli umræðna. Það er einmitt svona lagað sem getur gerst þó að nefndin sé sammála, og kannski enn frekar ef hún er sammála, þá gleymist eitthvað. En sem betur fer er hægt að kippa þessu í lag.
Mér finnst, líkt og Verkalýðsfélag Grindavíkur leggur áherslu á, mikilvægt að við finnum einhverjar leiðir til að eyða þeirri óvissu eins og mögulegt er fyrir launafólk og fyrirtæki til lengri tíma og þá finnst mér að það eigi að byrja á þeirri starfsemi sem getur ekki verið í bænum við þessar aðstæður. Við eigum að byrja þar og gera hinum síðan kleift að halda áfram, hvort sem það er í Grindavík eða á öðrum stað, og halda sambandinu á milli fyrirtækis og launþeganna og halda öllum samskiptaleiðum eins opnum og mögulegt er þannig að þegar færi gefst þá verði hægt að byggja Grindavík, bæði fyrirtæki og heimili og samfélagið allt, upp hratt og vel.