154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:55]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur átt sér stað sem hefur verið bæði gagnleg og góð. Þó er ég algjörlega meðvitaður um að það sem við erum að gera hér getur ekki verið annað en tímabundið því að við erum ekki búin að ná utan um þennan atburð sem er í gangi í Grindavík. Við vitum heldur ekki hvaða fyrirtæki geta starfað þar áfram. Þetta er, eins og hér hefur verið sagt, væntanlega fyrsta skrefið í mörgum aðgerðum sem þurfa að koma til til stuðnings fyrirtækjum í Grindavík. Við erum að tala um atburð sem byrjaði fyrir rúmum fjórum mánuðum síðan og við erum núna fyrst að grípa til einhverra aðgerða til að standa með fyrirtækjunum þannig að þetta hefur tekið tíma. Þetta er að mínu mati frekar takmarkað og ef maður skoðar bara 5. gr., sem er í raun og veru það sem þetta gengur út á allt saman, þá á rekstrarstuðningurinn sem verið er að veita að byggjast á tveimur liðum eða einum lið með þremur undirliðum:

„1. Rekstrarkostnaði umsækjanda þann almanaksmánuð sem umsókn varðar.

2. Margfeldi eftirfarandi stærða:

a. 600 þús. kr.

b. Fjöldi stöðugilda hjá umsækjanda í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar, þó að hámarki tíu stöðugildi.

c. Tekjufall skv. 2. tölul. 4. gr.“

Það liggur alveg í hlutarins eðli þegar maður skoðar þessi skilyrði að þessu er eingöngu beint að minni fyrirtækjum. Stóru og sterku fyrirtækin í Grindavík, stóru sjávarútvegsfyrirtækin, hafa mikinn mannafla í störfum hjá sér og það er ekki hægt að sjá endilega að þetta nái eitthvað til þeirra svo nokkru nemi.

Við hljótum auðvitað að fagna því að staðan sé orðin núna þannig að þau fyrirtæki sem eru við höfnin séu eitt af öðru að hefja starfsemi á nýjan leik. Vonandi rætast þau áform sem hafa verið kynnt í fjölmiðlum, að kalt vatn fari að renna inn í þau fyrirtæki væntanlega í dag þannig að starfsemi geti þá verið rekin undir eðlilegum kringumstæðum í framhaldinu.

Ég er einn af þeim sem skrifa undir nefndarálit um þetta frumvarp af því að mér finnst eðlilegt að við förum af stað. Það er fullt af fyrirtækjum sem eiga þess ekki kost að hefja starfsemi á nýjan leik eins og þau fyrirtæki sem núna eru farin af stað. Einhver fyrirtæki hafa hreinlega yfirgefið Grindavík og komið starfseminni í gang í öðrum sveitarfélögum. Við vitum svo sem ekki hvernig það mun fara í framhaldinu. Munu þessi fyrirtæki komi til baka eða verða þau kyrr þar sem þau eru? Þetta eru spurningar sem hvíla þungt á fólki. Við erum líka með fyrirtæki sem eru inni í miðri Grindavík og geta hreinlega ekki hafið starfsemi. Hér var nefnt iðnaðarsvæðið í Grindavík sem væri sundursprungið, held að það hafi verið orðið sem var notað. Þar eru fyrirtæki, þar eru líka sjávarútvegsfyrirtæki eða fyrirtæki sem eru í afleiddum störfum fyrir sjávarútveginn og nýsköpunarfyrirtæki einnig. Þessi fyrirtæki geta hreinlega ekki hafið starfsemi og við vitum ekki hvað bíður þeirra í framhaldinu. Þar eru fyrirtæki líka sem eru með starfsmenn umfram tíu og fá þá ekki að fullu bættan þann skaða sem þau verða fyrir þó að þetta hjálpi auðvitað til og skipti máli.

Ég vil bara lýsa yfir ánægju minni að fyrir nefndina hafi komið fulltrúar fyrirtækja sem hafa viðhaldið ráðningarsambandi og greitt umfram þann launastuðning sem búið var að samþykkja hér upp á 633.000 kr., held ég að það hafi verið, og greitt þeim starfsmönnum sem voru með hærri laun það sem upp á vantaði þrátt fyrir að fyrirtækin hafi ekki verið með starfsemi. Það sýnir viðleitni þessara fyrirtækja til að reyna að halda þessu gangandi og reyna að viðhalda því ráðningarsambandi sem er svo nauðsynlegt fyrir Grindavík í framhaldinu. Ef ráðningarsambandið rofnar — sem það er farið að gera núna, það er farið að kvarnast upp úr ráðningarsambandinu vegna þess að fyrirtækin hafa ekki bolmagn endalaust til að nýta eigið fé til að greiða laun fyrir störf sem ekki er unnin, það liggur í hlutarins eðli. Vonandi geta þessi fyrirtæki hafi störf á nýjan leik. Ef ekki, þá veit maður ekki hvað gerist. Fólk þarf þá hreinlega að fara að leita sér að nýrri vinnu og hvað þá?

Staðan er því auðvitað alvarleg hvernig sem á hana er horft. Það langar alla til að fara heim til Grindavíkur á nýjan leik, að fyrirtækin fari af stað með fullum krafti og okkur langar öll til að veita þá aðstoð sem þarf að veita. En við vitum ekki hvað gerist í framhaldinu. Á Facebook mátti lesa það í gær að landrisið í Svartsengi væri komið á svipaðar slóðir og það var fyrir gosið sem dundi á okkur í febrúar og eyðilagði heitavatnslögnina til Njarðvíkur þannig að við erum væntanlega að fara að sjá nýjan atburð innan tíðar. Hvað hann hefur í för með sér vitum við ekki.

En gott og vel, við erum hér að stíga ákveðin skref sem geta hjálpað til og munu eflaust gera það. En við þurfum að vera á tánum. Ég styð þessar tillögur sem hér hafa komið fram um að efnahags- og viðskiptanefnd ræði innan tíðar við fyrirtækin upp í Grindavík um með hvaða hætti þau vilji sjá framhaldið því að þessi aðgerð ein og sér dugar hvergi til að standa með þeim fyrirtækjum í Grindavík sem þurfa svo sannarlega á hjálp að halda.