154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[14:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er vissulega rétt að við þurfum kannski að taka einn bita í einu þegar við erum með fíl af þessari stærðargráðu. En það breytir því ekki að mér hefur fundist mjög mikið tómlæti þegar kemur að því að svara því hvort það standi til að gera a.m.k. eitthvað í þessum málum. Ég velti fyrir mér hvers vegna það sé. Við vitum það líka að þetta eru fyrirtæki sem hafa leitt af sér gríðarlega mikinn arð fyrir samfélagið þannig að mér finnst okkar skylda að gefa einhver svör, þótt ég átti mig á því að það er ekkert rosalega langt síðan í nóvember. En það er samt ansi langur tími að vita ekki hvað verður um atvinnuhúsnæði í bænum eða hvort það fáist einhver stuðningur til að setja upp starfsstöð á nýjum stað eða hvernig sem það nú verður. Maður veit ekkert hvort það verður. Auðvitað er það meiri hlutinn og ríkisstjórnin og sér í lagi fjármálaráðherra sem ræður mestu um það, vonandi í góðu samráði við atvinnulífið í Grindavík. Af þessum sökum þá finnst mér þetta svolítið snúið, þótt auðvitað sé ég mjög ánægð með að við séum að samþykkja þetta frumvarp og er á þessu nefndaráliti rétt eins og hv. þingmaður, en svo förum við bara inn í kjördæmaviku og vitum að það er ekkert að fara að gerast þá og væntanlega koma engin svör í vikunni eftir það heldur og svo líður tíminn. Það sem mér finnst kannski mikilvægast í þessu öllu er að mörg vilja fara að geta ákveðið sig, hvar þau ætli að setjast að, hvernig þau ætli að lifa lífinu núna og komast út úr þessu óvissuástandi og fara að byggja upp nýtt líf á nýjum stað. Á meðan þetta liggur ekki fyrir þá sitja margir, held ég, bara enn þá pikkfastir í óvissunni og enn þá með sína fasteign í Grindavík og geta ekki ákveðið sig.