154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

slit ógjaldfærra opinberra aðila.

705. mál
[16:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra laga um slit ógjaldfærra opinberra aðila. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði almenn löggjöf sem stýri því hvernig unnt er að setja tiltekna opinbera aðila, þ.e. stofnanir og fyrirtæki hvers skuldbindingum ríkið eða sveitarfélag ber einfalda ábyrgð á, í slitameðferð sökum ógjaldfærni. Verði frumvarpið að lögum felur það um leið í sér mikilvægan áfanga í því að vinna úr uppsöfnuðum fjárhagsvanda ÍL-sjóðs. Ég mun hér í ræðu minni fyrst gera almenna grein fyrir efni frumvarpsins og síðan fjalla um tengsl þess við málefni ÍL-sjóðs.

Frumvarpið mælir annars vegar fyrir um skyldu þess sem hefur á hendi fyrirsvar opinbers aðila, eins og hann er skilgreindur í frumvarpinu, til að leggja fyrir ráðherra eða sveitarstjórn rökstutt erindi, ef aðilinn er talinn ógjaldfær, með tillögum um hvernig bregðast megi við stöðunni. Ef ráðherra eða sveitarstjórn telur rétt að aðilinn verði tekinn til slita ber að leggja kröfu um það fyrir dómstóla. Nánar er svo kveðið á um slitameðferðina og uppgjör skulda. Sú sérstaða er uppi í samanburði við hefðbundin gjaldþrotaskipti að kröfur lánardrottna beinast ekki einungis að opinberum aðilum, heldur um leið að ríkinu eða viðkomandi sveitarfélagi á grundvelli einfaldrar ábyrgðar þess á kröfunum. Talsvert hagræði er fólgið í því að ljúka í einu lagi fjárhagsuppgjöri vegna opinbera aðilans, bæði kröfuhafa og ábyrgðaraðila.

Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir hlutlægri ábyrgð ríkisins eða sveitarfélags á tjóni kröfuhafa, hafi slíkt tjón sannanlega orðið vegna niðurfellingar á samningssambandi við opinbera aðilann sökum slitanna. Gengið er út frá því að slíkt tjón myndi felast í mismun á ávöxtun sem fengist hefur á fjárhæð sem greidd er við slitin til uppgjörs á kröfu og því sem fallið hefði kröfuhafanum í hlut á grundvelli kröfu sinnar ef ekki hefði komið til slita. Miðað er við að krafa um slíkar bætur verði fyrst höfð uppi eftir að sá tími sem réttarsamband kröfuhafans og opinbera aðilans hefði staðið er liðinn, enda ætti hugsanlegt tjón þá að liggja ljóst fyrir.

Málefni ÍL-sjóðs hafa verið til skoðunar hjá stjórnvöldum í nokkurn tíma. Líkt og kunnugt er tók ÍL-sjóður við eignum og skuldbindingum Íbúðalánasjóðs með lögum nr. 151, sem samþykkt voru á Alþingi árið 2019. Almennri lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs hafði verið hætt nokkru áður. Skuldbindingar ÍL-sjóðs samanstanda að megninu til af kröfum samkvæmt skuldabréfum með afborgunum allt til ársins 2044, svonefndum íbúðabréfum. Skilmálar bréfanna kveða á um að þau séu óuppgreiðanleg á sama tíma og útlán voru það ekki, en vaxtastig hefur almennt lækkað frá því að skuldabréfin voru gefin út. Af þeim sökum hefur verulegt tap verið á rekstri sjóðsins og fyrir liggur að eignir hrökkva ekki fyrir skuldum. Eignir munu að óbreyttu þrjóta á næstu tíu árum sem væri tíu árum áður en lengsti skuldabréfaflokkur íbúðabréfa kemur á gjalddaga.

Til að skilja umfang vandans hefur verið reiknað út hver kostnaður ríkissjóðs gæti verið ef ÍL-sjóður er rekinn út líftíma skulda. Niðurstaðan er að það mun kosta ríkissjóð 478 milljarða króna, miðað við áætlaða stöðu um síðustu áramót, eða núvirt um 200 milljarða króna. Til að setja þá fjárhæð í eitthvert samhengi þá dugar hún til að reka alla sjúkrahúsþjónustu í rúmt ár eða fjármagna öll útgjöld til samgöngumála í fjögur ár. Það er því mikið í húfi að málið fái farsæla lausn í náinni framtíð og sá kostnaður leggist ekki að fullu á komandi kynslóðir.

Ríkissjóður ber einfalda ábyrgð á ÍL-sjóði og mun áframhaldandi rekstur sjóðsins auka skuldbindingu ríkissjóðs vegna ábyrgðarinnar um allt að 18 milljarða króna á hverju ári. Þess vegna hefur verið skoðað með hvaða hætti unnt sé að slíta sjóðnum og gera upp skuldbindingar við kröfuhafa. Slíku uppgjöri myndi ætíð fylgja greiðsla vegna uppgjörs ríkisábyrgðar að því marki sem eignir sjóðsins nægja ekki fyrir skuldum hans. Sjóðurinn verður ekki tekinn til gjaldþrotaskipta að óbreyttum lögum og þess vegna þarf að koma til lagabreytinga svo unnt sé að setja sjóðinn í hefðbundinn farveg gjaldþrotaskipta.

Alþingi hefur í reynd fleiri kosti í þeirri stöðu sem upp er komin. Þeir helstu eru í fyrsta lagi að bíða þess að eignir ÍL-sjóðs verði uppurnar og slíta sjóðnum þá. Í öðru lagi að leggja sjóðnum til fjármuni til að gera honum kleift að greiða af skuldum sínum út líftíma þeirra 2044, en það er talið ganga lengra en ábyrgð ríkisins tekur til. Í þriðja og síðasta lagi að samþykkja löggjöf sem skipulögð slit sjóðsins geta byggt á. En taka þarf afstöðu til þess hver þessara kosta þjónar best hagsmunum almennings og komandi kynslóða.

Nokkur mikilvæg atriði eru skýr í þessu máli og ég leyfi mér að nefna þau stuttlega:

Kröfuréttindi teljast til eignarréttinda og njóta sem slík verndar stjórnarskrárinnar.

Íslenska ríkið ber einfalda ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðs sem felast í skuldabréfum sjóðsins. Þá ábyrgð ber ríkinu að virða.

Með slitum sjóðsins áður en lokagjalddagi skuldabréfanna er runninn upp er efndatíma krafnanna breytt.

Vegna þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um gjaldfærni ÍL-sjóðs og um fyrirsjáanlegt greiðsluþrot hans, sem leiðir af sér verulegt tjón fyrir almenning, felst í handhöfn ríkisvalds skylda til að grípa til ráðstafana. Leitast þarf eftir eins hagfelldri niðurstöðu og kostur er fyrir helstu hagsmunaðila, sem eru skuldabréfaeigendur, ríkissjóður og almenningur.

Sá kostur sem ekki er í boði fyrir mig sem fjármála- og efnahagsráðherra er að aðhafast ekki neitt. Vegna þessa hefur verið leitast eftir því að koma á viðræðum við handhafa skuldabréfanna um ásættanlega lausn. Það samtal er nú hafið þar sem 18 lífeyrissjóðir, sem eiga meiri hlutann af skuldum sjóðsins, hafa ákveðið að hefja viðræður við stjórnvöld um uppgjör á skuldabréfum sjóðsins. Markmið viðræðnanna er að ná samkomulagi sem felur í sér að skuldabréfin verði gerð upp að fullu og skilyrði sköpuð fyrir slitum ÍL-sjóðs.

Það er jafnframt í því ljósi sem boðað var til skiptiútboða þar sem eigendum íbúðabréfa bauðst að skipta þeim út fyrir seljanlegri bréf. Útboðin tókust vel og var skipt á bréfum fyrir um 46,7 milljarða kr.

Vegna framangreinds hef ég nú lagt fram frumvarp, að undangengnu vönduðu samráðsferli, sem getur orðið grundvöllur skipulegra slita á sjóðnum.

Frú forseti. Fyrirhuguð lagasetning er þannig hugsuð að með slitum geti eigendur skuldabréfa orðið eins eða mögulega betur settir eins og ef málefni ÍL-sjóðs yrðu látin óafskipt. Samt sem áður er sérstök skaðabótaregla í frumvarpinu sem mun setja hvers kyns kröfur um bætur vegna mögulegs tjóns í skipulegan farveg.

Umsagnir hafa borist í samráðsgátt stjórnvalda vegna þessa frumvarps. Í einhverjum þeirra er því borið við að ríkisábyrgð vegna sjóðsins sé í reynd umfram þá ábyrgð sem tilgreind var í úboðsskilmálum á sínum tíma. Á það er bent í umsögnum að aðilar hafi fjárfest í þeirri trú að ekki gæti komið til greiðslufalls af neinu tagi vegna skuldabréfanna. Þótt ég hafi sannarlega samúð með því að slík hafi verið trú þeirra sem fjárfest hafa í skuldabréfunum, þá get ég sem fjármála- og efnahagsráðherra ekki án skýrs samþykkis fjárveitingarvaldsins byggt niðurstöðu þessa máls á væntingum eigenda skuldabréfanna einum saman.

Besta leiðin til þess að lenda málefnum ÍL-sjóðs farsællega er að ná samkomulagi við eigendur skuldabréfa um uppgjör og sú afstaða mín hefur ekki breyst með framlagningu þessa frumvarps. Það er því mjög ánægjulegt til þess að vita að slíkt samtal sé hafið.

Uppgjör á skuldum ÍL-sjóðs er jafnframt til þess fallið að lækka skuldir hins opinbera samkvæmt framsetningu Hagstofunnar en það er það skuldaviðmið sem lánshæfismatsfyrirtæki horfa jafnframt til. Að öðru óbreyttu má gera ráð fyrir að uppgjörið geti falið í sér jákvæð áhrif á lánshæfi og fjármögnunarkjör ríkissjóðs.

Ég vek athygli á því að með afgreiðslu þessa frumvarps yrði aðkomu þingsins að fyrirhuguðum slitum ÍL-sjóðs að líkindum ekki lokið. Enn eru lög í gildi um sjóðinn frá 2019 og þá er ekki loku fyrir það skotið að sérstakar lagalegar ráðstafanir þurfi að viðhafa til þess að gæta að fjármálastöðugleika, vegna fjárhagslegs umfangs sjóðsins.

Að lokum hvet ég til þess að við hugsum aðeins út í það hvernig við komumst í þessa stöðu og lærum af mistökum fortíðarinnar. Þá sögu rek ég ekki hér en við sem erum lýðræðislega kjörin til þess að axla þá miklu ábyrgð sem það er að fara með fjármuni almennings eða annarra manna fé verðum í hvívetna að vanda vel til verka og það er ég hér að gera.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari.