154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

772. mál
[18:50]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Efni frumvarpsins lýtur að því að reglugerðarheimild verði bætt við 8. gr. laganna svo að ráðherra sé heimilt að kveða nánar á um stoðþjónustu sem er nauðsynleg þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu án aðgreiningar, einkum um aðstoðarmannakort fyrir fatlað fólk og um fæðisfé starfsfólks sem matast með notendum í störfum sínum. Í frumvarpinu er einnig lagt til að yfirlitsákvæði laganna í 40. gr., um reglugerðarheimildir ráðherra, verði uppfært og þeim reglugerðarheimildum laganna sem ekki eru þar nú verði bætt við ákvæðið.

Hæstv. forseti. Núverandi fyrirkomulag er varðar fæðiskostnað sem fellur til þegar starfsfólk þjónustuveitenda matast með notendum er mismunandi milli sveitarfélaga. Á flestum stöðum eru fæðispeningar samkvæmt kjarasamningum greiddir til notanda eða í íbúasjóð og er þá greitt eftir fjölda stöðugilda. Ekki er tryggt að fæðispeningarnir dugi fyrir matarkostnaði og því getur komið upp sú staða að notandi þurfi að greiða sjálfur það sem upp á vantar. Gildandi fyrirkomulag er varðar kostnað fyrir aðstoðarmenn fatlaðs fólks vegna aðgangs að viðburðum og fleiru hjá hinu opinbera er einnig mismunandi á milli sveitarfélaga. Þannig eru engar samræmdar reglur í gildi um hver skuli greiða kostnað fyrir aðstoðarmann sem fer með notanda á viðburð á vegum hins opinbera, t.d. í leikhús, á tónleika, á söfn eða í sund. Í einhverjum tilfellum þekkist að notandi sjálfur þurfi að greiða þennan kostnað úr eigin vasa.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu og reglugerðarsetningu í kjölfarið er stefnt að því að fara í breytingu á núgildandi fyrirkomulagi sem ég hef hér rakið og samræma reglur um bæði fæðisfé starfsfólks og um kostnað fyrir aðstoðarmenn fatlaðs fólks. Breytingunum er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti í þjónustu við fatlað fólk sem er eitt af grundvallarmarkmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem á að lögfesta síðar á þessu kjörtímabili. Með lagasetningunni er því ætlunin að ráðherra fái heimild til að kveða nánar á um þessi atriði með það fyrir augum að tryggja jafnræði fatlaðs fólks á við ófatlað fólk óháð þjónustuformi eða búsetu. Verði frumvarpið að lögum verður með reglugerðarsetningu í kjölfarið hægt að kveða á um fæðiskostnað starfsfólks í reglugerð þannig að það sama eigi við um alla notendur óháð búsetuformi og kjarasamningum þess starfsfólks sem þjónustar einstakling sem á í hlut hverju sinni. Skýrt verði kveðið á um að notendur skuli ekki bera kostnað af fæði starfsfólks sem veitir þjónustu lögum samkvæmt. Lagabreytingin mun einnig hafa í för með sér að hægt verði að kveða á um í reglugerð að sveitarfélögin gefi út aðstoðarmannakort fyrir fatlað fólk þannig að notandi beri ekki viðbótarkostnað fyrir aðstoðarmann sem fer t.d. með notanda í sund, á safn eða í leikhús á vegum hins opinbera. Kortin verði í vörslu notandans og veiti frían aðgang fyrir aðstoðarmann hans hjá hinu opinbera.

Virðulegi forseti. Lagt verður til að mat sveitarfélags á því hvort notandi þarfnist aðstoðarmannakorts eða hvort starfsmaður matist með notanda og þá hve oft á dag verði hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun notanda. Í þessu samhengi vil ég nefna að ég hef jafnframt hug á að farið verði í átak í samvinnu við Samtök atvinnulífsins, samhliða reglugerðarvinnu í ráðuneytinu, til að fá fyrirtæki með okkur í lið og hvetja atvinnulífið til samfélagslegrar þátttöku er varðar niðurgreiðslu á kostnaði vegna aðstoðarmanna fatlaðs fólks, t.d. á líkamsræktarstöðvum, í kvikmyndahúsum og svo mætti lengi telja.

Virðulegur forseti. Sú lagabreyting sem hér er lögð fram tekur mið af tillögum sem lagðar voru fram í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018 og út kom árið 2022, en starfshópurinn fékk m.a. það hlutverk að endurskoða lögin í heild sinni og greina álitaefni sem upp höfðu komið frá setningu laganna. Vinna hópsins tók mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þáverandi félagsmálaráðuneyti, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

Lagabreytingin tekur einnig mið af þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027 sem var einmitt hér til umfjöllunar fyrr í dag eða tekur nánar tiltekið til aðgerðar C.1., um útgáfu aðstoðarmannakorta. Aðgerðin var unnin í einum af 11 vinnuhópum sem störfuðu með verkefnastjórn að mótun framkvæmdaáætlunar og í hópnum sátu fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, sveitarfélaganna og Stjórnarráðsins. Rík áhersla var lögð á að fatlað fólk, hagsmunasamtök og stjórnvöld ynnu á jafnréttisgrundvelli og voru vinnuhóparnir leiddir af fulltrúum hagsmunasamtakanna.

Frumvarp þetta hefur verið kynnt í samráðsgátt og þangað bárust gagnlegar og jákvæðar umsagnir. Verði frumvarpið að lögum mun vinna við reglugerðir um aðstoðarmannakort og um fæðisfé starfsfólks hefjast í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í nánu samstarfi við sveitarfélög og aðra hagaðila.

Virðulegur forseti. Sú lagabreyting sem hér er lögð fram hefur verið unnin í góðu samráði við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess sem og fulltrúa sveitarfélaga, eins og áður er komið að. Verði frumvarpið að lögum mun það sem slíkt ekki hafa áhrif til kostnaðar eða útgjaldaauka. Hins vegar er ljóst að reglugerðir sem settar verða á grundvelli fyrirhugaðrar lagabreytingar munu hafa kostnaðaráhrif, bæði á ríki og sveitarfélög, og því verður lögð áhersla á að vinna kostnaðarmat samhliða gerð reglugerðanna en þó má telja að kostnaðaráhrif verði óveruleg.

Virðulegur forseti. Lagabreytingin mun stuðla að auknu jafnrétti í þjónustu við fatlað fólk. Hún er liður í innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf sitt sammælst um að lögfesta á kjörtímabilinu. Reglugerðarsetning sem á eftir kemur mun hafa jákvæð áhrif á stöðu og tækifæri fatlaðs fólks til þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar og stuðla að rétti þess til að lifa sjálfstæðu lífi.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar.