Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.
Virðulegi forseti. Ég er alveg sannfærður um að ég og hv. þingmaður erum einhuga um að í okkar góða lýðræðissamfélagi eru góðar reglur, lög, kosningalög þar með talin, til þess að gera upp á milli ólíkra skoðana um það hvernig við byggjum samfélagið. Síðast þegar kosið var fékk ég mjög gott umboð frá fólkinu í landinu. Ég hef axlað ábyrgð á því máli sem hv. þingmaður ber hér upp, m.a. með því sem hv. þingmaður vísar til en hann hefur lesið hér upp úr völdum köflum úr áliti umboðsmanns Alþingis. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við það en í stað þess að fá hér eins konar útgáfu af stjórnsýslufræðingnum, hv. þingmanni, þá sakna ég þingmannsins sem talaði hérna um mál sem brenna á þjóðinni; fæði, klæði, húsnæði, hét það ekki það? Er það ekki það sem heimilin eru að hugsa um, húsnæðismálin, að eiga til matar, að geta keypt inn til að reka heimilið? Eru þetta ekki verkefnin sem við í raun og veru erum valin til þess að sinna? Eða vill þingmaðurinn (Forseti hringir.) í alvörunni halda áfram umræðu um (Forseti hringir.) álit umboðsmanns Alþingis sem ég hélt að væri útrætt og ég hef axlað ábyrgð á og óttast ekki dóm kjósenda þegar upp er staðið.(Gripið fram í: Þú segir nú bara eitthvað, Bjarni.)