154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er 100% sammála hv. þingmanni um að okkur ber að virða löggjöfina og okkur ber síðan að bregðast við í samræmi við tilefnið hverju sinni. Ef einhver keyrir á 100 km hraða á Toyotu þá fær hann sekt en honum er ekki bannað að aka í framtíðinni nema hámarkshraðinn í því tilviki hafi verið svo lágur að viðkomandi hafi verið á meira en tvöföldum hámarkshraða. Þá getur hann misst prófið, hv. þingmaður, alveg í samræmi við tilefnið hverju sinni.

Þegar við erum að ræða hér um álit umboðsmanns Alþingis þá erum við ekki að ræða um landsdóm. Við erum að ræða um trúnaðarmann Alþingis sem veitir okkur leiðbeiningar og leggur línurnar um það hvað er góð stjórnsýsla hverju sinni. (Gripið fram í.) Ég hef þegar rætt þetta mál sem mig snertir. Hæstv. fyrrverandi matvælaráðherra hefur líka brugðist við með því að svara niðurstöðum umboðsmanns í því tilviki. Við bregðumst við í samræmi við tilefnið hverju sinni. Hvort sem stjórnarandstöðuflokkum líkar betur eða verr þá er hér mjög sterkur meiri hluti (Forseti hringir.) sem styður þessa ríkisstjórn. Ég veit að það getur verið erfitt að horfa upp á það fyrir stjórnarandstöðuna en ykkar tími mun koma þegar við förum í kosningar.