154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum auðvitað að hlusta á og tökum til okkar hvatningarorð frá hv. þingmönnum um að vinna vel saman og við munum gera það. (Gripið fram í: Gerið þið það.) Við höfum gert það núna í bráðum sjö ár. Við gerðum það á fyrra kjörtímabili og fengum mikinn stuðning hjá þjóðinni til að halda áfram og við erum einhuga um að klára kjörtímabilið saman. Við erum sammála um allar meginforsendur þegar kemur að þeim forgangi þingmála sem þarf að ljúka hér á vorþinginu. Ég bara kalla eftir því að þeir sem hafa athugasemdir við stefnu þessarar stjórnar treysti sér í málefnalega umræðu um stefnumálin. Hættið að hafa áhyggjur af samstöðunni í ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Við skulum bara ekki bjóða þjóðinni upp á þann skrípaleik sem oft er stutt í hér á þinginu, að ræða um það hvernig ástandið er milli einhverra flokka sem hverju sinni stjórna (Gripið fram í.) í landinu. Ég skora á stjórnarandstöðuna að taka á sig rögg og koma í umræðu um stefnumál stjórnarinnar ef þau þora. (Gripið fram í: Þið mætið aldrei.)