Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.
Herra forseti. Ég óska nýskipuðum forsætisráðherra til hamingju með embættið og velfarnaðar í starfi en ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé að vænta einhverra breytinga á stefnu þessarar ríkisstjórnar. Í aðdraganda stjórnarmyndunarinnar í apríl uppgötvaði Sjálfstæðisflokkurinn áhuga sinn á einkum þremur málum; útlendingamálum, orkumálum og fjármálum ríkisins. Auðvitað ber að fagna því að þessi áhugi hafi kviknað eftir síðastliðin sex og hálft ár. En ég spyr einkum um útlendingamálin, því að nýverið kynnti síðasta ríkisstjórn sameiginlega stefnu stjórnarflokkanna í útlendingamálum. Er það það eina sem við getum átt von á frá nýju ríkisstjórninni í þeim málaflokki, þessi svokallaða sameiginlega stefna sem var kynnt hér nýverið?