154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það fór um mig hrollur þegar ég heyrði hæstv. forsætisráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, nota vinstra orðið inngilding um stefnu ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum. En það kom þó fram hjá hæstv. ráðherra að það stæði í rauninni bara til að fylgja eftir því sem var búið að kynna í þessum málaflokki, þrátt fyrir að þetta hafi verið eitt af þremur stóru málunum sem Sjálfstæðisflokkurinn að sögn lagði áherslu á í stjórnarmyndunarviðræðum. En hvernig var þessi sameiginlega stefna? Hún var langur listi af óskum Vinstri grænna og alls konar froða á milli og jú, svo átti víst Sjálfstæðisflokkurinn að fá að klára litla útlendingamálið sitt númer tvö. Það er allt og sumt. Það er afraksturinn við þessa stjórnarmyndun í þessum málaflokki og það veldur mér áhyggjum því það bendir til þess að þessi nýja ríkisstjórn hafi ekki hugmynd um hvert ástandið er í þessum málaflokki og hvað þá í öðrum; í fjármálum ríkisins (Forseti hringir.) þar sem nýr fjármálaráðherra segist ekkert endilega ætla að spara, eða í orkumálunum og við þekkjum nú afstöðu orkumálaráðherrans til þess.