154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[16:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég ítreka hamingjuóskir til nýskipaðs forsætisráðherra en velti fyrir mér hversu dýru verði sá stóll var keyptur. Til hvers var þessi ríkisstjórn mynduð? Því að á undanförnum árum höfum við margoft heyrt viðvaranir, aðvaranir hv. þingmanna, ekki hvað síst Sjálfstæðisflokksins, um að þeir ætluðu ekki að láta bjóða sér meira af þessu sem hefur verið í gangi hér undanfarin ár með þessu stjórnarsamstarfi og nú væri komið að ögurstund. Ögurstundirnar komu og fóru án þess að brugðist væri við. En nú kemur bara á daginn að þetta er það sem þessir flokkar vilja, þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill, að vera í þessu stjórnarsamstarfi með þessum flokkum og með þessa stefnu. Nema þetta snúist bara um ótta, nema þetta sé bara hræðslan við kosningar því að þetta er að því er virðist fyrst og fremst hræðslubandalag sem hér hefur orðið til með nýrri ríkisstjórn, bandalag þeirra sem óttast það meira en nokkuð annað að fara í kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn og ekki hvað síst nýskipaður hæstv. forsætisráðherra lögðu áherslu á það á síðustu dögum þegar verið var að ræða um myndun þessarar stjórnar að það þyrfti að taka á þremur stórum málum. Það væru útlendingamálin eða innflytjendamál, það væru orkumálin og fjármál ríkisins. Auðvitað varð maður glaður að sjá þennan nýkviknaða áhuga Sjálfstæðisflokksins á þessum málaflokkum sem hann hefur nú farið með nánast óslitið í áratug meira og minna, en lýsti nú áhyggjum af stöðunni í þessum málaflokkum. En hver er raunin? Hver er niðurstaðan eftir þessa stjórnarmyndun? Ja, í orkumálum reyndar segist hæstv. forsætisráðherra vilja að orkuframleiðslan verði aukin á kjörtímabilinu. Það er nú ekkert sérstaklega mikið eftir af kjörtímabilinu. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra eða þessi ríkisstjórn að fara að því að auka orkuframleiðslu á Íslandi á einu og hálfu ári? Það þyrfti að slá met í virkjunarframkvæmdum til að ná því. Ég leyfi mér reyndar að efast um að það verði nokkuð farið af stað hvað það varðar í lok þessa kjörtímabils, enda hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð ekkert verið sérstaklega spennt fyrir orku almennt, hvorki grænni orku né annars konar orku og aukningu í framleiðslu hennar.

Svo eru það útlendingamálin og hér heyrðum við bara áðan hæstv. félagsmálaráðherra lýsa því hver niðurstaðan hefði orðið í þeim málaflokki. Það var ekki annað að heyra á hæstv. ráðherra en að þessi nýja ríkisstjórn myndi færa sig enn meira í átt að stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í þeim málaflokki en áður, meira en fyrri stjórn. Það hefur verið vísað í hið sögulega samkomulag um útlendingamál sem síðasta ríkisstjórn kynnti á blaðamannafundi ekki alls fyrir löngu. Sá sáttmáli var nokkrar blaðsíður, fyrst og fremst af óskalista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í útlendingamálum og einhver froða þar á milli. En Sjálfstæðisflokkurinn átti að fá að klára litla útlendingamálið sitt nr. 2, sem hann er með hér fast einhvers staðar í þinginu. Það leið hins vegar ekkert á löngu á sínum tíma áður en fulltrúar VG, hv. þingmenn þeirra og til að mynda hv. þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs útskýrðu að það væri þeim ekkert endilega skapi að klára þetta litla útlendingamál Sjálfstæðisflokksins á þann hátt sem lagt var upp með, menn hefðu sett fyrirvara við það. Og enn er þetta mál í óvissu í þessari nýju ríkisstjórn, sem átti að vera mynduð ekki hvað síst til að taka á útlendingamálum, eins og nýr hæstv. forsætisráðherra lýsti því þegar hann var að leita að tilgangi þessarar ríkisstjórnar. Það er með öðrum orðum ljóst að stjórnin er ekki að fara að ná tökum á þessum gríðarlega stóra og aðkallandi og erfiða málaflokki.

Hvað með fjármál ríkisins, þriðja stóra áhersluatriði flokksins sem myndaði þessa ríkisstjórn? Jú, hér höfum við heyrt í nýjum fjármálaráðherra og hann hefur einnig tjáð sig við fjölmiðla um framhaldið, hann hefur engan sérstakan áhuga á aðhaldi eða að ráðast í einhvern sparnað. Þar fóru ríkisfjármálin og þar með verður verðbólgan auðvitað áfram sú sem hún hefur verið, en hún er nú líklega sú hæsta í Evrópu og hækkaði í síðasta mánuði á Íslandi á meðan hún lækkaði víðast hvar annars staðar vegna þess að íslenska ríkisstjórnin, þessi gamla og að því er virðist sú nýja líka núna, hefur slegið öll met í útgjöldum ríkissjóðs og mesta furðan er auðvitað að landsmenn hafa ekki fengið neitt fyrir. Hvað hefur batnað, hvað hefur breyst við öll þessi útgjöld? Það er ekki auðvelt að koma auga á það.

Maður hlýtur þá að spyrja sig: Til hvers er þessi ríkisstjórn mynduð? Ekki um neitt þessara þriggja stóru mála sem lágu til grundvallar og voru mest aðkallandi að mati nýskipaðs hæstv. forsætisráðherra, þau mál verða ýmist bara í sama horfinu eða það verður afturför eða bakslag eins og hæstv. félagsmálaráðherra myndi kalla það, hann horfir fram á bakslag í stóru óleystu úrlausnarefnum síðustu ríkisstjórnar hjá þessari ríkisstjórn. Til hvers er þá þessi ríkisstjórn mynduð? Hún er ekki mynduð um neitt annað en ótta, hræðsluna við kosningar núna. Hún er mynduð um ótta en kannski líka smávon, ekki von um að það takist betur til við stjórn landsins, það er ekki búið að kynna neitt slíkt. Nei, kannski von um eitthvert kraftaverk sem þeir vita ekki hvert verður og ætla ekkert sjálf að hafa neitt með að gera, en von um að það gerist eitthvað sem verði til þess að þessir flokkar fái aukinn stuðning og geti haldið áfram að vera við stjórnvölinn. Til hvers? Til að vera í ríkisstjórn. Þetta hefur gengið út á það frá upphafi og ekkert annað. Þetta er ríkisstjórn sem er mynduð, ekki um stórpólitísk álitaefni eins og hæstv. núverandi forsætisráðherra sagði á sínum tíma þegar hún var fyrst mynduð 2017, þá átti þetta vera ríkisstjórn um stöðugleika. En af því að hana skorti erindi, eins og hún síðar uppgötvaði, þá varð þetta ríkisstjórn um óstöðugleika.

Þetta var líka kynnt sem ríkisstjórn með breiða skírskotun, munið eftir þessu, 2017. Ég veit ekki hvort þau fundu upp á þessu orðalagi sjálf eða fengu einhverja auglýsingamenn til að aðstoða sig, en þetta var kynnt sem ríkisstjórn með breiða skírskotun. Hvernig kynnti svo hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins þessa nýju ríkisstjórn núna? Þetta væri stjórnarsamstarf í breiðu samhengi. Áður höfðum við ríkisstjórn með breiða skírskotun. Nú höfum við stjórnarsamstarf í breiðu samhengi. Innihaldið er ekkert. Menn finna bara upp einhverja merkimiða til að réttlæta veru sína í ríkisstjórn og jafnvel þegar þeir koma sjálfir auga á hver stóru óleystu viðfangsefnin og þau mest aðkallandi eru og mynda ríkisstjórn að sögn um þau mál þá treysta þeir sér ekki til að koma með lausnina. Í staðinn horfum við upp á bakslag; bakslag í útlendingamálum, bakslag líklega í orkumálum. Við vitum ekki hvað stendur til þar en ég óttast bakslag og ég óttast bakslag í ríkisfjármálunum þegar sá flokkur sem hefur kannski verið einna ákafastur í ríkisútgjöldunum er tekinn við stjórn þess ráðuneytis eftir ríkisstjórn óttans. Þetta er hræðslubandalag sem því miður mun líklega leiða yfir okkur bakslag.