Störf þingsins.
Virðulegi forseti. Hjól samfélagsins snúast með sanngjörnum framlögum allra til samneyslunnar. Við greiðum skatta af laununum okkar sem fara svo til ríkis og sveitarfélaga sem starfrækja þau grunnkerfi sem við ætlumst til að séu til staðar í samfélaginu. Þótt flestir Íslendingar afli launatekna eru sumir sem afla einungis fjármagnstekna, það eru tekjur af réttindum í eigu einstaklinga, vaxtatekjur, arður, söluhagnaður, leigutekjur o.fl. Af fjármagnstekjum er innheimt lægri skattprósenta ásamt því að ekki er innheimt útsvar til þeirra sveitarfélaga sem viðkomandi er búsettur í. Talsvert ósamræmi er því á milli tekjuflokka, ríkinu og þá sérstaklega sveitarfélögum í óhag. Innan sveitarfélaga er því fólk sem nýtir sér þjónustu þeirra án þess þó að greiða krónu fyrir hana. Lengi hefur verið varað við því að svona ósamræmi hvetji til þess að fólk leiki á kerfið og skrái launatekjur ranglega sem fjármagnstekjur, t.d. er talið að ríkissjóður glati í kringum 10 milljörðum kr. á ári í núverandi fyrirkomulagi. Vegna þessa var ritað í núgildandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna að taka regluverk í kringum tekjuflutning til endurskoðunar og tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.
Virðulegi forseti. Ég nefni þetta hér enda tel ég mjög mikilvægt að við hröðum þessari vinnu. Við fáum hér fljótlega inn til Alþingis frumvarp sem tekur á þessu. Það er sanngirnismál að klára slíka löggjöf og ég vænti þess að það sé þverpólitísk samstaða um að gera það.