Störf þingsins.
Virðulegi forseti. Undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir í gær spurði hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hæstv. utanríkisráðherra út í mikilvæga yfirlýsingu sem forsætisnefnd Norðurlandaráðs sendi frá sér á vorþingi ráðsins í síðustu viku og hv. þingmaður og varaforseti Norðurlandaráðs hafði frumkvæði að. Yfirlýsingin kveður á um að Norðurlöndin í sameiningu beiti sér fyrir friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Með yfirlýsingunni er þeim tilmælum beint til norrænu ríkisstjórnanna að þær hvetji og styðji Ísraela og Palestínumenn til þess að vinna að friði og sáttum með friðarsamningi sem byggi á alþjóðarétti og ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Aðspurð sagðist hæstv. utanríkisráðherra taka tilmæli forsætisnefndar Norðurlandaráðs, hvar Ísland gegnir formennsku, virðulegi forseti, og hefur komið hér fram, til sín og gæti einfaldlega svarað því játandi að hún væri tilbúin til að beita sér fyrir því að Norðurlöndin stígi fastar fram og beiti áhrifum sínum og ímynd til að skapa umgjörð fyrir friðarumleitanir. Þá tók ráðherrann fram að henni þætti góður bragur á þessari vinnu forsætisnefndar.
Mér þótti gott að heyra þessi svör hæstv. utanríkisráðherra, virðulegi forseti, enda Norðurlöndin friðsamur hópur frændþjóða sem getur sannarlega lagt sitt af mörkum fyrir betri heim. Eins og við þekkjum með árhundruða sögu af friði hér í norðri er friðurinn forsenda velsældar, jöfnuðar, lýðræðis og mannréttinda. Allt þetta vantar í þeim hryllilegu aðstæðum sem fólk býr við fyrir botni Miðjarðarhafs þessa dagana og því miður of víða um heim. Byggt á reynslu og sterku og traustu samstarfi geta Norðurlöndin því sannarlega verið afl til friðar og fyrirmynd í því að allir borgarar heimsins geti öðlast það sem þau þrá; velsæld, jöfnuð, lýðræði og mannréttindi í skjóli friðar.