154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir akkúrat ekkert svar. Ég veit ekki eiginlega alveg á hvaða vegferð hann var að tala um áhætturekstur og annað slíkt. Það er gegndarlaus gróði og það þýðir ekkert að vera að horfa eitthvað fram í tímann því að hugsanlega fari allt á hliðina og þá væri betra að við værum búin að losa okkur við gullgæsina og höggva af henni höfuðið. Þetta var í rauninni ekkert svar. Því spyr ég aftur, hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er Íslandsbanki búinn að greiða mikið í arð til íslenska ríkisins á síðustu fimm árum? Hver var hagnaður Íslandsbanka á fyrstu þremur mánuðum þessa árs? Er hæstv. fjármálaráðherra sem sagt algjörlega munstraður inn í þann pilsfaldakapítalisma sem hér ríður röftum ár eftir ár?