154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en mig rak eiginlega í rogastans. Ég hafði bara ekki veitt því athygli í kynningu morgunsins að það væru ekki áform um að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs nema um 1,3% á áætlunartímabilinu, fimm árum, því að sala Íslandsbanka í heild sinni kallar ein og sér fram 1,0% lækkun skuldahlutfallsins, eins og segir í greinargerðinni. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra um það sem segir hér í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að ríkissjóður selji helming af 42,5% hlutdeild í Íslandsbanka á árinu 2024.“

Er ekki í raun verið að segja að Íslandsbanki verði ekki seldur eða að eftirstæður hlutur ríkissjóðs verði ekki seldur að fullu á líftíma þessarar ríkisstjórnar? Í ljósi sögunnar yrði það sérstök ævintýramennska ef menn ætla að binda trúss sitt við þá hugmynd að selja seinni helming eftirstæðs hlutar korter í kosningar. Þegar við skoðum þetta í samhengi við það að hæstv. ráðherra segir að áætlunin gangi út á að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs einungis um 1,3% en 1% af því komi af sölu Íslandsbanka, (Forseti hringir.) getur þá hæstv. ráðherra útskýrt það stuttlega og hvort raunhæft sé að selja seinni helming eftirstæðs hlutar á árinu 2025 miðað við kosningar á því ári?