154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í frumvarpinu og framsögu minni er ráðgert að þessi sala fari fram í tvennu lagi. Það er stefnt að því að selja sirka helminginn á þessu ári og hinn helminginn á því næsta. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að því gefnu að þingið samþykki þessa aðferðafræði og þessi lög, að kominn sé skýr farvegur fyrir að hægt sé að gera þetta á kosningaári, eins og hv. þingmaður kallaði það. Ef við gerðum ekkert á fjögurra ára fresti af því að það er kosningaár litist mér ekki á þann búskap, ég verð að segja alveg eins og er. Ég held því að að því gefnu að frumvarpið fari vel rýnt í gegnum þingið og fyrir liggi skýr fyrirmæli um hvernig framkvæmdarvaldið eigi að standa að þessu sé ekkert því til fyrirstöðu að það sé gert.