154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sósíalíska eldræðu, sem gekk út á margt. Í upphafi sagði hv. þingmaður að Flokkur fólksins styddi engan veginn sölu á Íslandsbanka, ef ég skildi það rétt, og ekki heldur á Landsbankanum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Er það stefna Flokks fólksins að eiga þá almennt fjármálafyrirtæki? Og finnst hv. þingmanni þá eðlilegt að Ísland skipi sér í flokk með ríkjum eins og Norður-Kóreu og Kína þegar kemur að aðkomu ríkisins að eignum á fjármálamarkaði? Þykir Flokki fólksins þá líka eðlilegt að tryggingafélög séu ríkisvædd? Eigum við að ganga lengra og tala um sementsverksmiðjur eða byggingarfélög því að hv. þingmanni varð tíðrætt um stöðuna á íbúðamarkaði? Hvernig telur hv. þingmaður fjármunum ríkisins best varið í eignarhaldi á ýmiss konar fyrirtækjum?