154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, talsmanni pilsfaldakapítalismans, fyrir fyrirspurnina. Flokkur fólksins sér svolítið eftir Sementsverksmiðjunni, já. Hún var gefin og það voru engir peningar greiddir fyrir hana eins og svo margt annað sem hefur verið selt til vina og vandamanna án þess að króna hafi komið fyrir það inn í ríkissjóð, ekki ein einasta króna. Við höfum ekki einu sinni fengið að njóta fjármunanna sem eignirnar okkar hafa borið, ekki einu sinni það. Hvort við erum Norður-Kórea eða Kína eða Rússland, eða hvaðeina annað sem hv. þingmaður er að ýja hér að, þá erum við fyrst og síðast kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga. Ef það kemur sér vel fyrir okkar ríkissjóð að reka eitthvað eins og banka viljum við að sjálfsögðu ekki losna við þá banka. Ef hv. þingmaður vill höggva og kljúfa niður gullgæsina þannig að ríkissjóður Íslendinga fái ekki notið heldur einhverjir útvaldir gæðingar úti í samfélaginu þá er þetta náttúrlega rétt stefna hennar flokks. En eins og ég segi algjörlega skýrt og skorinort: Að sjálfsögðu munum við í Flokki fólksins aldrei mæla með því að ríkisvæða allt sem heitir tap, að ríkið og íslenskur almenningur komi alltaf inn í og bjargi öllu sem heitir tap. En um leið og eitthvað gengur vel og er að fara að skila hagnaði þá á að einkavæða. Það er ekki stefna Flokks fólksins, svo mikið er víst.