ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.
Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Stefna Flokks fólksins er alveg skýr. Við höfum aldrei verið loðin í svörum um það hvað við viljum gera við bankakerfið, aldrei nokkurn tímann. Flokkur fólksins var á eldrauðu þegar atkvæði voru greidd um það hvort ráðast ætti í þessa bankasölu. Ef það er ekki nógu skýrt svar þá hef ég það ekki mikið skýrara. En hvort við eigum að binda fjármuni í einhverju sem skapar miklu meiri fjármuni til baka, hvort við eigum að halda áfram að fá gullegg, demantsgreitt, frá þeim fyrirtækjum sem við eigum: Já, absalútt, alveg endilega. Ekki einkavæða það og einkavinavæða það til einhverra ríkisbubba til að láta þá græða meira og meira. Nei, alls ekki. Íslenska samfélagið á þá að njóta eigna sinna.
Þegar hv. þingmaður er að ýja að því hvort ég ætli bara að kaupa upp landið og miðin, að Flokkur fólksins sé þar, að vilja ríkisvæða allt sem hér er til: Nei, það hefur ekki verið á döfinni, alls ekki. Við þurfum samkeppni. Þess vegna var rosalega spes að búvörulögin skyldu fljúga hér í gegn hjá Sjálfstæðisflokknum sjálfum þar sem í raun er verið að afnema allt eftirlit Samkeppnisstofnunar Íslands. Það er með hreinum ólíkindum. En allt í lagi, sumir tvista þessu og vita varla hvort þeir eru að koma eða fara. En það veit ég og það veit Flokkur fólksins, svo mikið er víst. Hvað Sementsverksmiðjuna varðar — guð minn almáttugur hvað það væri nú gaman að eiga sementsverksmiðju þannig að við gætum byggt meira; ríkið gæti þá bara gert það sjálft. Það væri afskaplega ánægjulegt, fyrir utan það að vera ekki að gefa Keldnalandið og horfa á það ónýtt og gefa það í einhverja borgarlínu sem búið er að henda út af borðinu. Það hefði kannski verið hægt fyrir sex árum að horfa aðeins í völvukúluna, sem oft er verið að tala um hér, og byggja eins og þörf var fyrir og allir vissu að var. Það er bara einfaldlega þannig.
En já, við erum algerlega skýr. Ef það er eitthvað sem við högnumst á og greiðir okkur arð í ríkissjóð þá eigum við aldrei að losa okkur við það í græðgisvædda, einkavædda vinavæðingu Sjálfstæðisflokksins.