154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég missti aðeins þráðinn hér í andsvörum. Ég verð eiginlega bara að fylgja eftir þessari góðu umræðu sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom af stað. Ég deili t.d. þeirri skoðun með hv. þm. Ingu Sæland að auðvitað eigi ríkið að nýta eignarhald sitt á bönkum, kannski nægir Landsbankinn til þess, til að byggja upp fjármálastofnun sem hefur samfélagsleg markmið í fyrirrúmi. Þannig þarf ríkið ekki einu sinni að vera ráðandi á markaði til þess að geta ýtt honum í rétta átt, geta tryggt samkeppni með því að þarna sé aðili á markaðnum til að sjá til þess að hann geri betur. Það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hugsaði sem eitthvert skens á Flokk fólksins, hvort flokkurinn vildi að ríkið ætti sementsverksmiðjur og byggingarfélög og hvað það er — veistu, ég hef bara heyrt verri hugmyndir.

Ég heyrði t.d. þá hugmynd að kannski væri kominn tími á það að vera með opinbert byggingafélag þegar ég sat viðskiptaþing nú í vor. Og sú hugmynd kom nú bara frá borgarstjóra Reykjavíkur, samflokksmanni hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Kannski var hann eitthvað að djóka í hægri mönnunum í salnum, aðeins að stríða þeim. En þetta er umræðunnar virði. Við stöndum frammi fyrir neyðarástandi á húsnæðismarkaði. Það hefur verið neyðarástand á húsnæðismarkaði árum saman. Það er verðbólguhvetjandi, það spilar mjög stórt hlutverk í slæmu efnahagsástandi, stöðu fjölskyldnanna í landinu. Væri það nokkuð það vitlausasta í heimi að opinber aðili stigi inn á þennan markað, sem augljóslega er ekki að sinna þörfum almennings, og hefði það sem markmið að húsnæði væri mannréttindi; hefði það ekki að meginmarkmiði að græða sem mest heldur að sjá til þess að það sé einhver til að fylla upp í gatið sem hefur verið viðvarandi árum saman?