154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Nú ætla ég að færa mig aðeins nær efni þess máls sem við erum með hér til umfjöllunar. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir spurði hvort Flokkur fólksins vildi endilega eiga Íslandsbanka. Ég held að ekkert okkar sem erum hér inni hafi farið í pólitík með það að markmiði að ríkið ætti Íslandsbanka. Við höfum kannski öll verið að berjast fyrir aðeins merkilegri hlutum. Staðreynd málsins er hins vegar sú að það vill enginn selja þennan banka. Almenningur treystir ekki ríkisstjórn Íslands til að selja þennan banka. Það er pattstaða uppi. Ég er sammála því sem hefur komið fram í umræðunni að það þurfi að anda í kviðinn, það þurfi bara að halda þessum eignarhlut og sjá til seinna, þegar við erum komin með betri ríkisstjórn, sem gæti mögulega verið treystandi til að breyta eignarhaldi á fjármálakerfinu. Þangað til þá er þetta ekkert spurning. Þá þarf ríkið bara að eiga þennan hlut í banka, eiginlega sama hvað okkur finnst um það.

En það er hins vegar svo himinhrópandi í þessu máli að ríkisstjórnin, rúin trausti af því að selja banka, ákveður að bregðast við því með því að losa allar reglur. Þetta frumvarp snýst um það. Ríkisstjórnin hefur aldrei getað fylgt reglum um sölu á eignarhlut í bankakerfinu. Það hefur gengið svo illa í síðustu skiptin að minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði til að stofnuð yrði rannsóknarnefnd með góðum rökum um það hvernig þáverandi fjármálaráðherra hefði haldið á verkinu. Frekar en að læra af þeirri reynslu er ákveðið að sleppa öllum böndum af ferlinu núna.

Finnst hv. þingmanni þetta boðlegt eða er þetta kannski (Forseti hringir.) tilefni til þess að gera ákall um rannsóknarnefnd á sölu númer tvö að raunveruleika? Er það ákall orðið sterkara núna?