154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:24]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir síðara andsvar. Já, það er nú eins og það er, við í Flokki fólksins vorum á rauðu þegar það kom til umræðu hér og atkvæðagreiðslu að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka í einhverjum smáskömmtum. Athygli vakti á þeim tíma að við vorum kölluð saman, formenn flokka, til þess að ræða þetta daginn fyrir jólafrí. Umsagnir voru sendar út og búið að svara öllu og allt frágengið þegar við mættum aftur í þingið 23. janúar, minnir mig. Það fór því í rauninni afskaplega lítil umræða fram hér í þingsal.

En meginreglan hjá Flokki fólksins er einfaldlega svona: Ef það sem við eigum er að skila sér í stórkostlegum fjármunum inn í ríkissjóð, sem við þurfum virkilega á að halda, er það óðs manns æði að reyna að losa sig við það. Við höfum svo sem líka sagt frá byrjun að það eina sem við værum alveg viss um að við vildum alls ekki selja væri einmitt Landsbankinn, að við myndum halda utan um þann banka og gera hann einmitt að svokölluðum samfélagsbanka, kannski í anda Sparbanken sem er orðinn 100 ára banki í Þýskalandi. Eða a.m.k. koma því þannig fyrir að það yrði alvörusamkeppni á markaðnum. Við segjum þetta bara, við erum að velta vöngum yfir þessu öllu saman. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson bendir á þá er búið að skipta þessu niður í A og B. A er almenningur að kaupa og B eru fagfjárfestar. Hverjir skyldu það nú vera? Hvað skyldi nú almenningur geta leyft sér að kaupa mikið í þessum A-parti sínum, almenningur sem er að lepja dauðann úr skel, það eru bara örfáir aðilar sem mögulega geta tekið þátt í þessu partíi. Það liggur algjörlega á borðinu. En svo eru það aftur fagfjárfestarnir? Hverjir skyldu það nú vera? En það sem við höfum séð þegar búið er að klippa hæfisreglurnar frá og verið að klippa af þessu, eins og hv. þingmaður bendir á — þetta er einu orði sagt bara grín.