154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[15:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Nú er það svo að í síðustu bankasölu var leitað umsagna bæði efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar. Þetta frumvarp er að detta inn í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki fjárlaganefnd sem sér um eignir, heimildir vegna eigna o.s.frv. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki eðlilegt að fjárlaganefnd komi líka að málum, bæði vegna þessa frumvarps og í raun vegna þessarar sölu, hvort það sé nægilega mikið að hlutverk fjárlaganefndar sé að veita heimild í fjárlögum um söluna eða hvort það þurfi að fara nánar út í það hvernig með eignir er farið, hvernig þær eru meðhöndlaðar. Í ríkisreikningnum á andvirði eignanna og ýmislegt svoleiðis að koma fram. Það er kannski ekki farið alveg nægilega vel með það. Við höfum komist að því í niðurstöðum endurskoðunarskýrslu ríkisendurskoðanda, sem er vissulega ekki alveg fullkomin en allt í lagi, það hafa alla vega komið ábendingar þar um að ekki sé nægilega vel haldið utan um andvirði þeirra eigna sem ríkið á. Við vitum það í öðrum málum líka að ríkið veit stundum ekki einu sinni hvaða eignir það á, hvað eyjar ríkið á eða hvaða kirkjujarðir ríkið á og ýmislegt svoleiðis. Ég vildi velta því upp hér með formanni efnahags- og viðskiptanefndar hvert hlutverk þingsins er í raun hvað varðar fjárlaganefnd í þessu og hvort ekki væri eðlilegt að skoða það betur.