154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[16:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil leiðrétta hv. þingmann smávegis, hann segir að ríkið sé ekki góður eigandi að eignum en kannski er réttara að segja að handhafar ríkisvaldsins hingað til hafi ekki verið mjög góðir eigendur að eignum. Það er munur þar á. Það getur alveg fengist hæft fólk til eignaumsýslu fyrir hönd ríkisins en það hefur bara ekki verið bragur þar á, ef svo má segja, á undanförnum áratugum held ég bara. Sett var upp eignaskrá ríkisins á síðasta áratug síðustu aldar eða svo. Það hefur gengið upp og ofan hvernig það hefur verið skráð og farið með þann gagnagrunn.

En hv. þingmaður kom undir lok ræðu sinnar inn á nauðsyn þess að selja Íslandsbanka til að borga skuldir og koma til móts við verðbólgu, vaxtakjör og þess háttar. Við verðum samt að viðurkenna það að ákvarðanir um t.d. arðsemiskröfu á bankana hafa efnahagslegar afleiðingar. Það að krefja ríkisbankana um mikla arðsemi, gera mikla arðsemiskröfu, setur álag á húsnæðiseigendur, á aðra viðskiptavini bankans. Það býr til álag á húsnæðiskerfið sem býr til álag á efnahagskerfið og úr verður ákveðin hringavitleysa. Það má því segja sem svo í rauninni að það séu efnahagsleg áhrif af því að hafa krafið bankana um þessa gríðarlega miklu arðsemi, til að reyna að selja þá fyrir sem hæst verð, en það eru heimilin, þegar allt kemur til alls, almennt séð, sem borga þetta. Þau eru að borga fyrir þá ákvörðun, að ríkisstjórnin hefur sett þessa háu arðsemiskröfu.