154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[16:04]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hv. þingmaður var hér í seinna andsvari sínu að reyna að breiða yfir það að ríkið gæti alveg verið góður eigandi, það vantaði bara svona rétta fólkið, minnir mig á það sem kommúnistarnir sögðu lengi vel; að það væri ekkert að kommúnismanum, hann væri mjög góður, það hefði bara aldrei tekist að framkvæma hann með réttum hætti. Þegar verið er að ræða um arðsemiskröfuna á bankann þá getur hv. þingmaður þess ekki að það er tvennt sem verður að hafa í huga líka. Það eru annars vegar þau þjóðhagsvarúðartæki í fjármálageiranum sem Fjármálaeftirlitið í Seðlabankanum setur á bankana sem eykur alveg gríðarlega fjárbindingu þeirra og varúðarsjónarmið varðandi eigið fé og hvað er bundið í bönkunum. Þetta er atriði sem er sjálfsagt að taka til. Í stuttu máli leiðir það til þess að bankarnir þurfa að hafa gríðarlega mikið eigið fé, meira en annars staðar gerist, til að koma til móts við þessar kröfur. Auðvitað leiðir það til þess að arðsemiskrafan er hærri. Síðan er annað atriði sem hv. þingmaður kom ekki inn á og er sjálfsagt að ræða út frá arðsemiskröfu á banka, en það er hversu mikla skattlagningu Alþingi hefur ákveðið að setja á fjármálafyrirtæki, hversu miklum skattgreiðslum fjármálafyrirtækin þurfa að standa undir til ríkisins. Arðsemiskrafan verður auðvitað hærri af þeim sökum.

Aðalatriðið hér er: Það er skynsamlegt, sérstaklega þegar ríkið skuldar yfir 1.000 milljarða, þegar vaxtagjöld eru svona há, að losa um eignarhluti, sérstaklega í Íslandsbanka, og greiða niður skuldir.