154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[16:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Hér erum við að ræða um fyrirhugaða sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Mig langar að nefna það hér strax í upphafi að ég er almennt hlynntur því að ríkið losi um eignarhald sitt á fjármálafyrirtækjum og auðvitað er mikilvægt að gera það í skynsamlegum skrefum. Þetta eru talsvert miklir peningar bundnir í bönkum sem ríkið á og ég held að það færi mjög vel á því að reyna að losa um það eins hratt og hægt er, auðvitað með hliðsjón af markaðsaðstæðum og því hvernig árar hverju sinni, og nota andvirðið til að greiða niður skuldir ríkisins eða fara eftir atvikum í einhverjar innviðafjárfestingar, en helst þó þannig að sem mest fari í niðurgreiðslu skulda. Ég held að það sé mjög mikilvægt atriði.

Ég styð það mjög eindregið að eftirstandandi hlutur í Íslandsbanka verði seldur og ég vona að hægt verði að klára það á þessu kjörtímabili ef það verður þá ekki kosið fyrr. Það hefur t.d. verið nefnt hér að ef kosið verður næsta haust, eða haustið 2025, gæti orðið flókið að selja á kosningaári. Ég er ekkert endilega sammála því ef þetta gerist allt svona með ágætisaðdraganda eða tiltölulega langt frá kosningunum. Hér er verið að ræða um fyrirkomulag sem er auðvitað ekkert óumdeilt, en það er þó a.m.k., held ég, heppilegasta fyrirkomulagið þegar verið er að selja hlut í banka, þ.e. að útboðið sé sem almennast, og hér er verið að leggja það til. Við getum horft til þess að þegar fyrsta útboðið á eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka fór fram þá var það tiltölulega almennt útboð en allt önnur leið var farin í seinna skiptið og þar dundu ósköp yfir eins og við þekkjum. Við erum svolítið að ræða þetta frumvarp í skugganum af því.

Ég hef líka talað fyrir því að selja Landsbankann. Það er þá seinni tíma mál en samtals eru eitthvað um 300 milljarðar bundnir í bönkunum sem ríkið á. Og að losa um þetta til að greiða niður skuldir held ég að væri mjög jákvætt að gera og nefni í því samhengi að vaxtagjöld ríkisins á hverju einasta ári eru hærri en það sem fæst fyrir eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka ef að líkum lætur. Þetta eru svakalegar upphæðir sem við fáum fyrir eftirstandandi hlut í Íslandsbanka en það er áhugavert að skoða þetta í því samhengi að tæpir 100 milljarðar fyrir þann hlut, þegar allt er talið, myndu ekki duga fyrir vaxtagjöldum ríkisins á einu ári.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að vera á samkeppnismarkaði almennt séð. Það geta auðvitað verið rök sem hníga að því á einstaka mörkuðum en þá þarf hlutverk ríkisins að vera mjög vel skilgreint. Við getum nefnt í þessu samhengi að við erum t.d. með Ríkisútvarpið á fjölmiðlamarkaði en hlutverk þess á að vera allt annars eðlis og víðtækara en einkamiðlanna. Þótt vissulega megi laga ýmislegt í þessari sambúð ríkisins og einkamiðla á þeim markaði þá kemur það að mínu mati ekki í veg fyrir að ríkið eigi að vera þar inni. En mér finnst þau rök ekki eiga við um fjármálamarkaðinn. Ég hef hins vegar tekið eftir því að mjög mörgum þeirra sem vilja líka selja í Landsbankanum finnst mikilvægt að ríkið eigi eftir einhvern kjölfestuhlut í þeim banka og ég gæti svo sem alveg fallist á það sjónarmið ef það myndi liðka til fyrir sölunni á hinum hlutanum af Landsbankanum. En í öllu falli held ég að við ættum að ná einhverri skynsamlegri lendingu um það. Ég styð a.m.k. þau áform að klára söluna á Íslandsbanka á þessu kjörtímabili. Það er hins vegar ekki sama hvernig það er gert, engan veginn. Og þá komum við aftur að því sem ég nefndi áðan, að það tókst illa til síðast þegar við gerðum það en mun betur þegar farið var af stað í fyrra skiptið.

Mig langar líka að nefna í þessu samhengi, sem sumir hafa komið inn á, að það er ákveðin áhætta fólgin í því fyrir ríkið að eiga banka. Það er sjónarmið sem við þurfum að taka til okkar. Það er reyndar þannig, og við þekkjum það úr hruninu, að þegar bankar falla, lenda í mjög miklum vandræðum, þá er oft horft til ríkisins. Ríkið taldi sig t.d. þurfa að stíga mjög sterkt inn þegar bankarnir féllu í bankahruninu, einfaldlega vegna þess að ef ríkið hefði ekki gert það hefði tiltrú fólks og almennings á bönkum og bankakerfi á Íslandi sjálfsagt verið sköðuð einhverja áratugi fram í tímann. Það hefði auðvitað verið alveg óbærileg staða að vinna úr. Þó að ríkið eigi í sjálfu sér ekki banka þá hefur það kannski einhverju hlutverki að gegna, eins og dæmin sanna, þegar það fer eins og gerðist hjá okkur í hruninu. Engu að síður finnst mér óverjandi að við séum með svona mikla fjármuni bundna í bankakerfinu.

Eins og ég sagði þá eru þetta um 100 milljarðar í Íslandsbanka sem væri hægt að losa og komið er inn á það í greinargerð með þessu máli að þetta myndi lækka skuldahlutfallið. Í greinargerðinni, þar sem þetta er tekið fram, segir, með leyfi forseta:

„Í eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki kemur fram að ætlunin sé að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að ríkissjóður selji helming af 42,5% hlutdeild í Íslandsbanka á árinu 2024. Gangi það eftir er útlit fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs geti lækkað um u.þ.b. 1,0% af VLF á árinu. Án sölu á eignarhlut í Íslandsbanka eru horfur á að skuldahlutfallið myndi einungis lækka um ríflega 0,1%. Sala á eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka er því ráðandi þáttur í lækkun skuldahlutfallsins á árinu.“

Þetta finnst mér auðvitað skipta mjög miklu máli í þessu.

Þessi umræða núna litast auðvitað af því hvernig gekk síðast. Þar fór auðvitað ótalmargt úrskeiðis sem við verðum að nefna í þessari umræðu. Sú sala gekk svo illa að fyrirkomulagið sem við höfum haft við þessa sölu á hlutum í ríkisins í bönkum í gegnum Bankasýsluna fór allt í uppnám og talað var um að leggja Bankasýsluna niður, sem á að gera. Þáverandi fjármálaráðherra, sem sá um söluna, kaus að segja af sér embætti eftir það allt saman, eftir að álit umboðsmanns Alþingis kom fram; fór reyndar yfir í næsta stól en við skulum láta það liggja á milli hluta í bili. Þetta hafði mikil áhrif á stjórnendur Íslandsbanka, eins og við þekkjum, þegar fram var komin skýrsla um það hvernig haldið hafði verið á málum þar. Bankastjóri bankans þurfti að hætta störfum. Ríkisendurskoðun fór yfir málið og sú skýrsla var einn samfelldur áfellisdómur yfir öllu því sem þar gekk á. Við höfum dæmi um það hvernig við eigum ekki að standa að málum þegar við erum að selja banka. Fyrir utan það þá erum við auðvitað líka með í fanginu þessa atburðarás sem varð með Landsbankann og TM á dögunum. Við erum auðvitað enn á fullu í þeirri atburðarás ef við getum orðað það þannig. Þar er talað um að Landsbankinn, í eigu ríkisins, hafi mögulega keypt tryggingafélag á yfirverði. Þá er ríkið allt í einu komið í samkeppnisrekstur á tryggingamarkaði og þetta er gert þvert á vilja eigenda bankans. Mér finnst það allt sem ég er að rekja hér vera rök fyrir því að ríkið eigi ekki að vera á fjármálamarkaði og kannski ekki síst sú atburðarás sem við höfum séð með Landsbankann og það sem þar hefur verið að skýrast.

Þetta segir okkur auðvitað að þessari ríkisstjórn hefur ekki tekist að hafa umgjörðina um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum í lagi, hvaða skoðun svo sem við höfum á öllum þeim atburðum sem ég er hér að rekja. Það ýtir okkur út í það að það geti þá verið niðurstaðan að það sé hreinlega heppilegra að losa um þessa eignarhluti. Mér finnst þetta í sjálfu sér allt vera rök sem hníga að því. Ég tek auðvitað undir það að þegar verið er að selja þurfi að gæta að öllum helstu mælikvörðum sem við höfum haft til hliðsjónar þegar við erum í svona einkavæðingarferli. Það eru hugtök á borð við jafnræði, gagnsæi, hagkvæmni og hlutlægni sem nefnd eru og skipta mjög miklu máli. Mér finnst mjög brýnt að horfa til þess að við fáum eins gott verð fyrir eignarhlutina og mögulegt er. En það má hins vegar ekki vera það mikið áhersluatriði að það ýti í burtu öllum hinum mælikvörðunum. Mér hefur nefnilega fundist að eftir alla atburðarásina sem varð í seinni einkavæðingunni á Íslandsbanka hafi menn einhvern veginn komið fram með þau rök að það geti allt saman talist léttvægt vegna þess að svo gott verð hafi fengist fyrir bankann. En við verðum auðvitað líka að gæta að því, þegar við erum að selja, að áfram verður að vera traust á fjármálamarkaði og á bönkum, þetta spilar að því leytinu saman. Áhersla á sem best verð verður auðvitað að vera í forgrunni en hún má ekki ýta öllum hinum mælikvörðunum til hliðar. Þarna verður að finna eitthvert jafnvægi á milli.

Ég hef tekið eftir því hér í umræðunni að það er verið að tala um það — og nefni ég þá þingmenn Samfylkingarinnar — að best sé að bíða með þessa sölu þangað til á næsta kjörtímabili. Ég get svo sem alveg skilið þá hugsun en ég er hins vegar ósammála því að við eigum að bíða. Ég vísa þá aftur til þess sem t.d. kemur fram í greinargerðinni, áhrifanna sem salan myndi hafa á skuldahlutfall ríkissjóðs, fyrir utan þá prinsippafstöðu sem maður hefur til þess að ríkið eigi ekki að vera í bankarekstri. Auðvitað þarf að selja þegar skilyrði eru hagfelld og það er í sjálfu sér ekkert endilega hægt að kortleggja það á dagatalinu nákvæmlega að fyrsta sala fari fram á þessum tíma og önnur sala á einhverjum öðrum tíma. En ef það er hægt að selja allan eftirstandandi hlutinn á þessu kjörtímabili þá styð ég það heils hugar.

Mér finnst líka skipta máli í þessu, sem við þurfum að hafa í huga, að ríkið er mjög umfangsmikið á fjármálamarkaði. Það kemur ekki til af því að okkur hafi endilega fundist það æskilegasta staðan að ríkið yrði umsvifamikið á fjármálamarkaði. Við erum í raun með ríkissjóð svona sterkan á þessum markaði vegna þess að ríkissjóður fékk bankana til sín þegar verið var að gera hrunið upp, í eftirmálum þess, eins og við þekkjum. Ég held að það segi okkur að þegar við höfum verið að reyna að teikna upp einhvern fjármálamarkað þá hafi það ekkert endilega verið hugsunin að ríkið ætti að vera sterkur leikandi á þeim markaði. Mér finnst líka, svo að ég fari aftur yfir í Landsbankann, því að margir hafa talað um að Landsbankinn eigi að vera einhvers konar samfélagsbanki og því eigi ekki að selja hann, vanta einhverjar betri útskýringar á því hvert hlutverk slíks banka ætti að vera, hvernig hann eigi að umgangast vald sitt á fjármálamarkaði, þá að einhverju leyti í samkeppni við aðrar fjármálastofnanir sem eru í einkaeigu. Mér finnst sú umræða ekki vera neitt sérstaklega þroskuð og hef ekki séð nein sannfærandi rök fyrir því að fara þá leið. Það getur verið að það sé kannski vegna þess að menn hafi ekki lagt sig sérstaklega eftir því að rökstyðja nákvæmlega hvert hlutverk samfélagsbanka í mögulegri samkeppni við einkaaðila á þessum markaði yrði þá í framhaldinu.

Ég held að þetta sé allt saman partur af því að við erum að reyna að fara betur með fjármuni almennings nú þegar við erum að berjast við háa vexti og háa verðbólgu. Það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að gera, bæði með því að fara betur með þá fjármuni almennings sem koma í gegnum hefðbundinn rekstur og skatttekjur ríkissjóðs en ekki síður þá hefur svona sala, eins og hér er verið að tala um, mikil áhrif á það að við værum ekki að greiða jafn mikið í vexti og ríkissjóður gerir á hverju einasta ári. Það eru auðvitað, eins og ég var að rekja út frá tölunum, 100 milljarðar á ári í vexti og rúmlega það, fjármunir sem gætu nýst mikið betur. Sala á þessum hlutum í Íslandsbanka gæti verið vegvísir í því að reyna að lækka það allt saman.

Ég ætla bara að árétta þessa grundvallarskoðun mína: Ríkið á ekki að vera í bankarekstri. Það eru engin sérstök rök fyrir því. Það má endalaust deila um þær leiðir sem valdar eru til að selja. Hvað varðar þessa sölu hér þá mun ekki standa á mínum flokki að reyna að standa vörð um það að öll þau helstu gildi sem við viljum hafa til hliðsjónar, þegar verið er að selja, verði höfð í hávegum. Ég nefndi þetta allt saman áðan, að það sé jafnræði sem gildir, að það sé gagnsæi og að niðurstaðan eftir sölu sé þá áframhaldandi traust á fjármálamarkaði, að það skaðist ekki í þeirri sölu sem fyrirhuguð er.