154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en langar að halda nokkrum atriðum til haga við þessa 1. umræðu. Það væri hægt að fara í löngu máli yfir sögu þessa eignarhlutar ríkissjóðs hvað varðar hlutabréf í Íslandsbanka. Ætlunin var auðvitað sú að eignarhluturinn yrði kominn úr eigu ríkissjóðs og þar með umbreytt í fjármuni til annarra nota, vonandi til niðurgreiðslu skulda eins og áform hafa alloft verið uppi um. Það er þó nauðsynlegt að minna á að afstaða Miðflokksins hefur lengstum verið sú að réttast væri — og kannski sérstaklega í ljósi þess vandræðagangs sem verið hefur við að selja eftirstöðvar í bankanum — og sanngjarnast að afhenda raunverulegum eigendum þessarar eignar, Íslendingum öllum, eignarhlut í réttu hlutfalli þannig að allir fengju sinn jafna skammt og gætu þá ráðstafað honum með þeim hætti sem viðkomandi hugnaðist best, mögulega með einhverri takmörkun á sölutíma og þar fram eftir götunum. Í kringum síðustu kosningar reiknaðist okkur til að þetta væru rétt um 300.000 kr. á hvern einstakling. En mér sýnist sú leið endanlega vera úr sögunni og þá er best að halda áfram og leggja áherslu á það sem mestu máli skiptir við meðferð þessara eigna, sem er stöðugleikaframlag sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar dró í bú hér á árunum 2013–2016 og hefur verið grundvöllur að því að skapa þá sterku stöðu sem ríkissjóður var í til að mæta áföllum Covid-heimsfaraldursins eins og við þekkjum.

En það sem ég vildi kannski sérstaklega koma inn á í þessari ræðu minni hér í dag er ráðstöfun söluandvirðisins. Ég held það skipti gríðarlega miklu máli að enginn undansláttur verði með það að afraksturinn verði notaður til að greiða niður skuldir hins opinbera. Vaxtakostnaður er, eins og við þekkjum, bæði úr umræðunni hér í dag og af þeim gögnum sem birtust í fjármálaáætlun, og svo sem margoft áður, þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs og mikið til þess vinnandi að draga úr honum sem mest við megum. Það er auðvitað þannig að í greinargerðinni, sem hér liggur fyrir, er svolítið slegið í og úr hvað þetta varðar. En hæstv. fjármálaráðherra talaði skýrt á kynningarfundi í morgun í þá veruna að afraksturinn yrði nýttur til niðurgreiðslu skulda. En texti greinargerðarinnar býður kannski upp á rýmri túlkun. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég óttast það dálítið að freistnivandinn verði mönnum erfiður við að eiga þegar afraksturinn og þessir fjármunir skila sér í kassann.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Sala á eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka gæti skapað ríkissjóði svigrúm til að ráðast í samfélagslega arðbærar innviðafjárfestingar.“

Við vitum það öll sem hér sitjum að innviðafjárfestingar eru margar hverjar orðnar býsna nauðsynlegar og raunar viðhald sömuleiðis þar sem eignir hins opinbera grotna niður, sama hvort það eru vegir vestur á firði eða byggingar sem mygla. Ég legg samt ofuráherslu á að þær tekjur sem þessi eign myndar verði nýttar til þess að greiða niður opinberar skuldir. Þar er mikið verk að vinna.

Ég kom inn á það í andsvari við hæstv. ráðherra í byrjun þessarar umræðu að ég er hóflega bjartsýnn á að það sé raunhæft markmið hjá þessari ríkisstjórn, miðað við hver nálgunin er, að klára sölu Íslandsbanka á þessu kjörtímabili, jafnvel þó að ríkisstjórnin skakklappist alveg til 20. september 2025, sem er síðasti löglegi laugardagur gagnvart næstu alþingiskosningum.

Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að ríkissjóður selji helming af 42,5% hlutdeild í Íslandsbanka á árinu 2024.“

Það blasir auðvitað við að varla verður framkvæmd nein sala fyrr en í haust. Mér er það til efs í ljósi sögunnar að ríkisstjórnin treysti sér til að fara í annan sölufasa á næsta ári, á árinu 2025, verði hún enn við völd á þeim tíma, og klára sölu þessara hlutabréfa korter í kosningar, ef svo má segja. Hæstv. ráðherra var nú nokkuð brattur hvað það varðar í andsvörum fyrr í dag og ég vona að sú afstaða haldi og að það takist. Það er engin ástæða til annars en að umbreyta þessari eign hins opinbera, og það var alltaf planið, þannig að það takist að draga úr vaxtakostnaði með lægri skuldsetningu.

Áfram segir, með leyfi forseta, um söluna:

„Gangi það eftir er útlit fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs geti lækkað um u.þ.b. 1,0% af VLF á árinu.“

Ég skildi ráðherrann þannig í andsvarinu að fjármálaáætlunin, sem var kynnt í morgun, gerði ráð fyrir 1,3% lækkun á skuldahlutfallinu sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu á áætlunartímabilinu öllu. Ef ráðherra vinnst tími til, og það er ánægjulegt að ráðherrann sitji hér í salnum undir þessari löngu umræðu, þá kannski útskýrir hann þetta stuttlega í lokaræðu sinni komi hann í slíka, hvort það sé raunverulega þannig að af 1,3% lækkuðu skuldahlutfalli ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu á fimm ára tímabili sé áætlað að 1,0%, sem sagt obbinn, komi frá sölu Íslandsbanka. Þó að við eigum eftir að ræða fjármálaáætlunina síðar þá slær það mig með sérstökum hætti að þungi Íslandsbankasölunnar sé svona mikill hvað það varðar að lækka skuldahlutfallið yfir fimm ára tímabil, sé þetta raunin.

Ég held að ég láti þetta duga sem áhersluatriði áður en málið gengur til nefndar. En ég held að þessi atriði skipti máli. Í fyrsta lagi að söluandvirðið verði nýtt til niðurgreiðslu skulda. Í öðru lagi að leitað verði leiða til þess að söluferlið verði klárað, hvort sem það verða tveir skammtar eða fleiri, á þessu ári og næsta, þannig að sala á hlutabréfum Íslandsbanka sé frá. Og síðan að áfram verði unnið að því að eigendastefna ríkissjóðs gagnvart hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum gangi fram í fastari takti en verið hefur nú um alllanga hríð.