154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að þeir sem höndla með ríkiseignir njóti trausts. Ég hef nú talað um það í samhengi við þau vandamál sem við okkur blasa í orkumálum, að komast áfram með orkuframkvæmdir, að það væri miklu haganlegri leið að setja mál áfram þar á grundvelli sérlaga heldur en í gegnum rammaáætlunarferlið, sem hefur nú verið þeim göllum gætt sem við okkur blasa. Eins og mér sýnist þetta frumvarp liggja fyrir þá held ég að það sé svolítið sú nálgun sem verið er að fara í þessu tiltekna máli. Þar kemur til sá möguleiki fyrir okkur hér í þinginu að hafa áhrif á það með hvaða hætti salan gengur fram og er römmuð inn. Ég held því að nefndin sem fær málið til umfjöllunar verði í færum til þess að hafa miklu meiri áhrif en annars væri á sölu eins og þessa, þannig að hæstv. fjármálaráðherra, má segja, og ríkisstjórnin öll verði í því hlutverki að framkvæma söluna eins og þingið segir. Þó að frumvarpið komi frá fjármálaráðuneytinu og fjármálaráðherra mæli fyrir því þá hefur þingið miklu meiri tök á því að setja mark sitt á söluna með þessari leið en þeirri sem farin var síðast og í raun þarsíðast líka.

Ég held að það hafi mjög oft sést undanfarið, því miður, hvað ríkissjóður, ríkið, getur verið óheppilegur eða hreinlega á köflum vondur eigandi eigna. Ég held að það sé til mikils vinnandi að ríkissjóður fikri sig út úr þeim bankarekstri sem hann hefur staðið í, í umfangi sem þekkist hvergi í kringum okkur. Þó að ég beri hóflegt traust til ríkisstjórnarinnar í heild sinni, sem kemur kannski engum á óvart, þá held ég að það sé skárra að koma þessum sölumálum áfram með þeim hætti sem hér er lagt til en að geyma það fram á næsta kjörtímabil, hvenær svo sem það byrjar.