154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Að misbeita opinberu valdi í einkaþágu er skilgreiningin á spillingu. Í öllum störfum stjórnvalda er hvergi eins mikil hætta á spillingu og þegar ríkiseignir eru seldar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að það ríki traust til þeirra sem leiða slíka sölu. Það skiptir máli að ríkisstjórn sem selur eignir almennings hafi sterkt umboð. Fyrrum fjármálaráðherra, sem bar ábyrgð á fyrri atrennu að sölu Íslandsbanka, sem endaði á því að hann seldi pabba sínum óvart hlut í bankanum á afslætti, er forsætisráðherra í dag eftir stutt stopp í utanríkisráðuneytinu eftir að umboðsmaður Alþingis benti á að honum hefði brostið hæfi. Framkvæmdin við sölu bankans var ekki í samræmi við lög og þekktir leikendur úr bankahruninu, auk pabba ráðherra, eignuðust hlut í bankanum á afslætti. Afslátturinn sem átti að laða að langtímafjárfesta nýttist þess í stað bröskurum í gróðavon. Söluaðilar voru staðnir að því að selja sjálfum sér og margir á kaupendalistanum höfðu stöðu innherja. Skilgreiningin á hæfum fjárfestum var svo óljós að alls konar braskarar komust að. Á þessu ber fyrrum fjármála- og efnahagsráðherra lagalega og pólitíska ábyrgð sem hann hefur aldrei axlað. Í dag er hann forsætisráðherra, maðurinn sem hefur skilið eftir sig slóð spillingarmála og klúðrað málum þegar kemur að sölu ríkiseigna. Það var í raun algerlega galið þá, fyrir samstarfsflokka hans í ríkisstjórn, að treysta honum fyrir því að selja ríkiseignir eftir allt sem á undan var gengið. Hann var og er enn allt of persónulega tengdur inn í íslenskt viðskiptalíf til að geta talist hæfur til að fara með slíka sölu. Það er alveg ljóst að nýr forsætisráðherra nýtur ekki trausts og þessar nýjustu hrókeringar stjórnarflokkanna til að ríghalda í völd sín við brottfall forsætisráðherra njóta ekki trausts. Mikilvægt skref í að auka traust er að hlusta á áhyggjur og ákall þjóðarinnar og ná samstöðu í þinginu og í samfélaginu um hvernig við höldum áfram með þetta mál.

Það skiptir öllu máli upp á trúverðugleika og traust að við gerum fyrri sölu upp að fullu en til þess þurfum við að skipa rannsóknarnefnd. Tilgangur skipunar rannsóknarnefndar er bæði að rannsaka sjálfa framkvæmd útboðsins í þaula en einnig að leiða fram pólitísku ábyrgðina og rekja alla þá þræði sem til þarf svo að heildarmyndin verði skýr. Þetta hefur ekki verið gert og það er óforsvaranlegt fyrir umboðslausa ríkisstjórn að ætla að halda áfram að selja banka án þess að hafa leitt fyrri bankasölu til lykta og axlað raunverulega ábyrgð.

Það er svo ótalmörgum spurningum ósvarað þrátt fyrir að talsverðar upplýsingar liggi nú þegar fyrir. Ég velti fyrir mér hvort það sé vegna þess að afmörkun rannsóknarinnar var ákveðin af þáverandi fjármálaráðherra en það var einmitt hann sjálfur sem óskaði eftir úttekt ríkisendurskoðanda án samráðs við þingið. Mér þykir mjög eðlilegt að við í stjórnarandstöðu köllum eftir óháðri og sjálfstæðri rannsókn á sölunni þegar ríkisstjórnin ætlar sér að keyra næstu sölu áfram í óþökk almennings. Það er eðlileg krafa að skipa rannsóknarnefnd til að upplýsa málið að fullu. Það er alger forsenda þess að skapað verði traust um meðferð nýrrar ríkisstjórnar á ríkiseign. Eins og landið liggur í dag er allt of lítið traust til staðar í samfélaginu til þessarar ríkisstjórnar til að réttlæta framkvæmd þessarar sölu. Það þarf að upplýsa málið til fullnustu.

Forseti. Almenningur á skilið uppgjör í málinu.