154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða og margt gott komið fram. Mér heyrist nokkur samhljómur vera meðal fulltrúa flestra flokka hér í þessum sal um að þessari ríkisstjórn sé illa treystandi til að selja banka eftir allt það sem á undan er gengið. Ég vil rétt koma inn á atriði sem ég náði ekki að koma að í fyrri ræðu minni sem er að það er stórhættulegt, mjög varhugavert, að selja ríkiseignir í einhverju bríaríi. Það er einmitt til þess fallið að koma í veg fyrir að hæsta mögulega verð fáist fyrir hlutinn hverju sinni. Ég hef áhyggjur af þessu þegar kemur að sölunni á Íslandsbanka þar sem tímaramminn er fremur knappur. Svo hef ég eiginlega enn meiri áhyggjur af þessu sama atriði þegar kemur að tryggingafélaginu TM sem Landsbankinn keypti á dögunum. Ég las fyrirsögn sem var eitthvað á þessa leið: Munum skoða að losna strax við TM. Þetta er mjög sérkennilegur þankagangur, að losna strax við TM. Markmiðið hlýtur að vera að fá gott verð fyrir TM, ekki að losna strax við TM af einhverjum dogmatískum ástæðum.

Ég vék að því í ræðu minni í dag að með brottfalli laga um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum yrði algjört lagalegt tómarúm þegar kemur almennt að sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég vil hins vegar árétta það að í lögum um opinber fjármál er að finna sérstaka lagaáskilnaðarreglu þegar kemur að sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þetta er kannski jákvæða hliðin á brottfalli þessara tilteknu laga, að ekki verður hægt að ráðast í sölu á Landsbankanum á næstunni nema hæstv. ríkisstjórn komi þá með frumvarp inn í þingið um það. En svo þarf auðvitað almennt að vera sterkur lagarammi um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og það er viðfangsefni okkar hér í þessum sal að tryggja að haldið verði vel á þeim málum.

Annars ætla ég ekki að hafa þetta lengra. Ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd rýni þetta mál vel. Ég ítreka aftur það sem ég benti á varðandi samskipti við söluráðgjafa og þá sem munu taka við söluþóknunum. Ég hefði haldið að það væri eðlilegast að marka betri ramma um þau samskipti í þessum tilteknu lögum og eins þegar kemur að málsmeðferð ráðherra við söluna. Ég held að það sé mikilvægt, ef farið verður í þessa vegferð, sem ég treysti ríkisstjórninni ekki til að gera, að búa betur um þessi atriði.