154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla mér nú alls ekki að lengja þessa umræðu neitt að ráði. Hún hefur verið ágæt og farið um víðan völl. Það eru einhverjir punktar sem mig langaði aðeins að koma á framfæri og kannski byrja á að segja að við í Viðreisn erum í grunninn sammála ríkisstjórninni hér, að það sé óskynsamlegt að binda peninga skattborgaranna í bankastarfsemi í jafn ríkum mæli og við höfum gert í allmörg ár, svo sem af ákveðinni ástæðu sem við öll þekkjum en engu að síður er liðinn töluvert langur tími síðan. Við höfum stutt hugmyndir um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka en jafnframt rætt um mikilvægi þess að það ríki gegnsæi um sölu þessa hlutar og að hagsmunir almennings séu þar leiðarljósið en ekki hagsmunir einhverra tiltekinna aðila sem hugsa sér gott til glóðarinnar. Við höfum líka undirstrikað að andvirði sölunnar fari í niðurgreiðslur skulda ríkissjóðs og síðan í skýrt afmarkaða innviðafjárfestingu. Þetta hefur verið stefnan.

Það er kannski áhugavert á þessum tímum sem við erum núna að hugsa hversu gott það hefði nú verið ef staða ríkisfjármála hefði verið þannig að þessi eign hefði verið seld og peningarnir runnið í mjög svo þarfar innviðafjárfestingar, nokkuð sem við þekkjum öll að mikil þörf er á en fáir þó sennilega betur en núverandi hæstv. fjármálaráðherra, fyrrverandi iðnaðarráðherra. En staðan er sú sem hún er og þá er auðvitað eðlilegt að litið sé til þess að nýta þetta fjármagn til niðurgreiðslu skulda. Það er sennilega ekki hægt að nýta það betur í nokkurt annað eins og staðan er. En sorglegt er það og það er ágætt að halda því hér til haga enn og aftur að vaxtakostnaður af skuldum ríkissjóðs, söluandvirði þess hluta sem eftir stendur í Íslandsbanka dekkar það ekki, þeir 100 milljarðar sem þar eru. Þetta eru miklir fjármunir sem um ræðir.

Með því máli sem við ræðum hér er verið að tala um að selja þann hlut, um helmingshlut þessa hlutar sem enn er í eigu ríkisins, sirka 50 milljarðar, þar sem ríkið er þá samkvæmt eigendastefnu sinni að losa um eigur sínar og á sama tíma að taka til sín í gegnum annan ríkisbanka 30 milljarða eign í tryggingafélagi. Það fer kannski ekki alveg saman hljóð og tal þar eins og margoft hefur komið fram.

En það sem mig langaði fyrst og fremst að nefna hér er að á sama tíma og þetta eru tölur sem skipta okkur gríðarlegu máli, þetta eru tölur sem skipta hagsmuni okkar samfélags miklu máli, þetta eru tugir milljarða sem við getum notað, þá skiptir öllu máli að við náum að taka hraustleg skref í að greiða niður skuldir ríkisins, í að lækka vaxtaberandi skuldir, lækka vaxtagreiðslur og mögulega fara á einhvern hátt hraðar í innviðauppbyggingu sem mikil þörf er á. En umræðan hér, af ástæðum sem við þekkjum öll svo gríðarlega vel, fer í traustið: Er þessari ríkisstjórn treystandi fyrir þessu verkefni? Dæmin sýna að svo var ekki með síðasta skref í þessari sölu. Og þá erum við komin að því: Er þetta frumvarp til þess fallið að tryggja að hagsmuna almennings í þessari sölu sé gætt? Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að hagsmunir almennings, jafn ríkir og þeir eru af því að viðunandi verð fáist fyrir hlutinn og að þeir peningar puðrist ekki út í einhverja óráðsíðu í rekstri heldur séu nýttir í niðurgreiðslu skulda eða í skýrt afmarkaða innviðauppbyggingu, felast líka í því að hér sé byggt upp traust til aðgerða stjórnvalda, ekki síst þegar kemur að verkefnum sem tengjast fjármálamarkaðinum vegna þess að við erum öll, hvert einasta mannsbarn sem hefur aldur til, brennd af þeim atburðum sem urðu hér á árunum í kringum 2008. Þetta er svo óendanlega mikilvægt verkefni og það er þess vegna sem svíður svo hvernig til tókst í meðförum ríkisstjórnarinnar við fyrri sölu, síðustu sölu á hlut í Íslandsbanka; neikvæðu áhrifin mögulega stærri en efni standa til af ástæðum og það eru ástæður sem stjórnvöldum eiga að vera fullvel kunnar. Þetta er því gríðarlega mikilvægt.

Efnahags- og viðskiptanefnd tekur núna boltann og það er ástæða til þess líka að taka tillit til þeirra umsagna sem borist hafa um þá aðferð sem kynnt er í þessu frumvarpi og sem hefur í sjálfu sér ekki verið beitt hér áður. Arion banki er t.d. með mjög afmarkað atriði og bendir á að ef illa tekst til geti það leitt til þess að lægra verð fáist fyrir hlut ríkisins en ella, geti leitt til þess að færri aðilar taki þátt í sölunni af orðsporsáhættu, vegna þess að það er ekki niðurnjörvað hver ber ábyrgð, hver hefur umsjón með verkferlum og öðru slíku. Ég ætla bara rétt að vona að efnahags- og viðskiptanefnd verði með augun á öllum þessum boltum sem kastað er upp; væntum fjárhagslegum ávinningi af sölunni, traustinu, orðsporinu, framkvæmdinni. Ég held að í ljósi sögunnar sé full ástæða fyrir þingheim allan að vera vel með á nótunum og fylgjast með þessari vinnu. Ég er ekkert endilega viss um að við fáum mjög mörg tækifæri í viðbót til að sýna að við ráðum við þessi verkefni og það er mjög miður.

Akkúrat núna ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta. Við í Viðreisn munum styðja nefndina til góðra verka, taka þátt í þessu og ég vona að við munum ekki þurfa að horfa upp á endurtekið efni þegar þetta mál verður afgreitt.