154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[18:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og kannski er þetta að hluta til meðsvar en ekki andsvar. Við deilum held ég þeirri sýn að ekki sé skynsamlegt að binda mikið fé ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum. Við eigum jú annan banka og ekki stendur til að selja hann. Það hefur einmitt komið hér fram, og kom fram í síðustu ræðu, að það að fella út þessar heimildir sem við höfum í dag til fjármálafyrirtækja verður auðvitað ekki gert öðruvísi en að það komi sérlög hér inn á þing og mér finnst líka mikilvægt að árétta það. Það hefur verið talsverð umræða hér um að við séum að verða af miklum arði. Hv. þingmaður kom einmitt inn á það, og fleiri, að skuldastaða ríkissjóðs se með þeim hætti að ef við gætum við núverandi aðstæður lækkað skuldir okkar um segjum þessa 100 milljarða, og borgum 8% vexti — við þyrftum að taka lán til að fjármagna ríkissjóð í staðinn fyrir að selja þessa eign og þá myndi það kosta okkur 8 milljarða. Nú þurfum við ekki á því að halda að taka 100 milljarða að láni á árinu 2025 eða 2024 en engu að síður myndum við væntanlega þurfa að taka lán ef við seljum ekki neitt í bankanum. Það mun kosta peninga. Á móti höfum við verið að fá kannski 5–7 milljarða í arð frá bankanum á síðustu árum, ef ég man rétt, þannig að ávinningurinn er augljós.

En ég er líka sammála hv. þingmanni varðandi það að það er mikilvægt að byggja upp traust og þess vegna er þessi leið farin. Það er verið að læra af þeim mistökum sem klárlega voru gerð í fasa tvö sölunni. Hér er leitað til þingsins til að búa til trúverðugleika og gagnsæi og heilindi og jafnræði og allt það sem við leggjum áherslu á í framkvæmdinni og síðan er það þá falið framkvæmdarvaldinu með nákvæmum lögum frá Alþingi eftir rýni. Ég vil bara enda á því að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki einmitt leiðin til að komast út úr þessum vanda, að byggja upp traust að nýju, að læra af reynslunni og fara þá leið sem við erum að fara hér; að leggja lög fram á þinginu sem eru þá nægilega skýr til þess að framkvæmdarvaldið geti farið eftir þeim.