154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:45]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Ég hjó nefnilega eftir því að hv. þingmaður kom inn á akkúrat þennan punkt hér í umræðum áðan og skrifaði þetta sérstaklega hjá mér líka vegna þess að þetta er sannarlega atriði sem verður að horfa til vegna þess að þetta er ekki stak í samhengi hlutanna, ekki frekar en stífluveggur er eitthvert einsdæmi eitt og sér í samhengi miðlaðrar virkjunar. Þar ertu með lón, þú ert með aðkomuvegi, þú ert með línur frá því og allt hangir þetta saman sem skapar ákveðin áhrif, sem m.a. er verið að setja ákveðnar skorður við með þessari ágætu stefnu. Þar held ég að við getum lært töluvert af vinum okkar og hugsanlega frændum í Skotlandi hvað þetta varðar. Ég notaði til einföldunar áðan orðin vítin eru til að varast þau, og ég held að við ættum að horfa á þetta sérstaklega með þeim augum því við höfum heilmikil tækifæri í að gera alveg einstaklega vel í þessum málum í ljósi þess að þetta er nær óbrotið land að öllu leyti í íslensku samhengi fyrir utan einstaka myllur, eins og ég kom inn á hér áðan.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi, og ég sagði hér í fyrri umræðu um skylt mál að við værum nú stundum á sömu línu, þá veit ég að við deilum áhyggjum af því sem við höfum upplifað í samhengi einstakra virkjunarframkvæmda hringinn í kringum landið í sögulegu samhengi og má kannski segja að vagga náttúruverndar á Íslandi sé í Mývatnssveitinni og hafi hafist þar á sínum tíma þegar fólk tók sig saman og sprengdi stíflu. Þetta er atriði sem er mikilvægt og ég fagna því að við séum skipulega farin að ræða og ávarpa það inni í atriðum eins og þessum. Það er enginn ágóði af því fyrir samfélag og/eða einstakar fjölskyldur að allir séu klofnir í herðar niður í óeiningu og ágreiningi um einstaka mál er þessu tengjast.