154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar í síðara andsvari að spyrja hv. þingmann aðeins út í forgangsafgreiðsluhugmyndina um vindorkuver. Í tillögu sem síðasti ráðherra lagði fram var búið að flokka allt Ísland í þrjá hópa. Það voru svæði þar sem væri bara bannað að spá í vindorkuver, það voru svæði sem þyrfti að taka til vandlegrar skoðunar innan rammaáætlunar og svo voru svæði þar fyrir utan sem sveitarfélag gæti einfaldlega ráðstafað undir svona framkvæmdir. Þarna var forgangsröðunin ákveðin í rauninni út frá þeim skertu náttúrugæðum sem gætu hlotist af framkvæmdunum. Mér finnst það dálítið skemmtileg nálgun, frekar en að miða alltaf við megavött eða hvað það er. Í þessari tillögu kveður hins vegar svo við að forgangsröðunin er ákveðin út frá einhverju sem er alveg utan landsvæðisins og alveg utan vindorkuversins, snýst bara um það í hvað raforkan verði hugsanlega notuð. Það verður sett upp sérstök málsmeðferð ef orkan nýtist í þágu orkuskipta og kolefnishlutleysis. Ég er enn þá aðeins efins um þetta vegna þess að undir þennan hatt er hægt að setja allan fjárann. Ég sá nú bara í Silfrinu í gærkvöldi gamlan Sjálfstæðismann halda fram úreltu klisjunni um að það væri svo frábært að nota íslenska orku í að framleiða ál vegna þess að þannig væri verið að bjarga loftslaginu. Það væri bara verið að koma í veg fyrir það að einhver kolaorkuver úti í heimi væru að knýja álver annars staðar. Með svona rökum er (Forseti hringir.) náttúrlega hægt að réttlæta hvaða virkjun sem er. Þannig að ég velti fyrir mér hvort við þurfum skýrari varnagla varðandi þetta.