Menntasjóður námsmanna.
Virðulegur forseti. Það er nú dálítið skrýtið að detta inn í umræðu um frumvarp sem við vorum að ræða í gær, maður missir pínu dampinn en ég ætla að sjá hvort ég næ honum ekki fljótt upp aftur. Það er búið að fara yfir mikið af þeim álitaefnum sem eru í tengslum við þetta frumvarp, bæði hluti sem mætti gera betur varðandi það sem lagt er til í frumvarpinu og síðan hversu langeygir stúdentar eru orðnir eftir almennilegum heildarúrbótum á þessu kerfi sem var komið á með lögum árið 2020. Ég ætla ekki að dvelja mikið við þann hluta umræðunnar heldur gera hér grein fyrir breytingartillögu sem lögð hefur verið fram af hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni þar sem færð eru fram ákvæði sem birtust í frumvarpi sem þingflokkur Pírata og þingflokkur Flokks fólksins standa sameiginlega að, stærra frumvarpi sem snýr að bættri stöðu námsmanna, en hér er búið er að taka ákveðna þætti inn og herma upp á þetta frumvarp.
Eins og við ræddum fyrr í umræðunni þá heyrum við oft slagorð eins og mennt er máttur og fjárfestum í framtíðinni, þegar er talað um mikilvægi þess að ungt fólk mennti sig, en mikilvægið og þessi fögru slagorð eiga það til að gleymast þegar kemur að því að gera hinum almenna námsmanni einfaldlega kleift að stunda nám. Embætti umboðsmanns skuldara miðar t.d. við að lágmarksframfærsla einstaklings án húsaleigu sé tæpar 215.000 kr. á mánuði en til samanburðar gerir Menntasjóður ráð fyrir að námsmenn geti lifað á aðeins 137.000 kr. á mánuði. Sem betur fer stendur til hjá hæstv. ráðherra að hækka þetta viðmið en þetta nær engu máli. Svo batnar þetta ekki þegar húsnæðisliðurinn er tekinn inn og þar dugar sá liður varla fyrir stúdentaíbúð, hvað þá ef þú þarft að fara á hinn almenna leigumarkað. Staðan er fyrir vikið sú að á Íslandi er eitt hæsta hlutfall námsmanna sem stunda vinnu með námi. Stúdentar þurfa sem sagt að vinna með skóla til að framfleyta sér. Þetta kerfi gengur ekki upp. Ef markmiðið hjá okkur er að nemendur geti einbeitt sér að námi eða að þeir þurfi að velja að lifa mannsæmandi lífi — það á ekki að þurfa að velja þarna á milli. Það sem þarf að gera er t.d. að auka hlutfall styrkja í kerfinu jafnt og þétt og draga úr því að fólk sitji uppi með lán sem það þarf að borga af í áratugi, enda er það nú einhver skynsamlegasta fjárfesting sem stjórnvöld geta ráðist í að stytta skuldahalann sem stúdentar taka með sér út í lífið að námi loknu. Þar væri alvörufjárfesting í fólki og framtíðinni.
Kannski er vert að rifja upp að þegar við afgreiddum frumvarp það sem varð að lögum um Menntasjóð námsmanna hér árið 2020 þá var þetta eitt það sísta sem kom inn í hið nýja kerfi, hin svokallaða sjálfbærni námslánakerfisins sem snýst um að ríkið þurfi ekki að leggja neitt til þess. Þetta er ekki stuðningskerfi lengur heldur er lánahlutinn þannig að honum er bara viðhaldið með greiðslum þeirra sem hafa tekið námslán áður, þannig að ef vanskil aukast eða ef aðstæður breytast í samfélaginu almennt þá er það bara sá hópur sem er innan námslánakerfisins sem stendur straum af því sjálfur. Þarna er ríkið ekki bakhjarl eins og ætti að vera.
Það sem mig langar að gera grein fyrir eru sum sé breytingartillögur á þingskjali við þetta frumvarp sem byggjast á frumvarpi sem er 13. mál á núverandi löggjafarþingi, nokkurs konar menntabandormur sem, eins og fyrr segir, Píratar lögðu fram með liðsinni Flokks fólksins. Þessi menntabandormur okkar Pírata fjallar um fleiri lagabálka en hér verður ekki vikið að því sem snýr að lögum um fæðingar- og foreldraorlof — þar er nú aldeilis fólk sem ber skarðan hlut frá borði, fólk sem þarf að reiða sig á fæðingarstyrk námsmanna — né heldur er hér fjallað um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Umræða um þann þátt var þó mjög áberandi í gegnum Covid þar sem stúdentar komu að luktum dyrum hjá stjórnvöldum og færðu vel rök fyrir máli sínu um að það þyrfti að setja öryggisnet undir stúdenta sem ekki gætu fundið vinnu yfir sumarmánuðina en allt kom fyrir ekki, þessu var ekki breytt af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þá. Hér verður sem sagt ekki fjallað um þessa tvo lagabálka heldur bara þær breytingar sem snúa sérstaklega að lögum um Menntasjóð námsmanna, það frumvarp sem hér liggur fyrir. Þessar breytingartillögur eru á þskj. 1511 sem lagt er fram, eins og ég sagði, af hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni.
Stúdentar hafa ítrekað kallað eftir hærri framfærslulánum þar sem núverandi fjárhæðir hrökkva hvorki fyrir húsnæðis- né framfærslukostnaði. Grunnframfærslukostnaður námsmanns í eigin húsnæði eða á leigumarkaði er samkvæmt Menntasjóðnum tæpar 150.000 kr. á mánuði ef aðeins er miðað við skólaárið en ef heildarfjárhæðinni er dreift yfir almanaksárið þannig að námshlé dekkist líka fer fjárhæðin niður í 112.000 kr. Heildarútgjöld bíllauss einstaklings án húsnæðisliðar eru hins vegar 167.000 kr. á mánuði og leiga fyrir einstaklingsherbergi á stúdentagörðum eitthvað í kringum 118.000 á mánuði. Staðan er því þannig nú að stúdentar geta ekki framfleytt sér án þess að vinna með námi, með tilheyrandi álagi og auknum líkum á brottfalli úr námi. Þessi staða er óásættanleg, sérstaklega þegar haft er í huga að um er að ræða lán en ekki styrk. Því er lagt til í 1. tölulið breytingartillögunnar að grunnframfærsla námsmanna skuli taka mið af grunnatvinnuleysisbótum fyrir fullt nám. Fjárhæðin skerðist síðan í samræmi við lækkað námshlutfall. Er þetta ekki bara eðlilegt viðmið, forseti, að sú upphæð sem við áætlum að fólk þurfi til að framfleyta sér þegar það er án atvinnu sé sú sama og við áætlum til fólks þegar það er í námi?
Þá er í a-lið 2. liðar í breytingartillögunni mælt fyrir um að lágmarkseiningafjöldi til að fá lánsrétt lækki úr 44 einingum á ári í 24 einingar. Sumar námsleiðir eru þannig uppbyggðar að fall í aðeins einum áfanga getur valdið því að nemandi hafi ekki lengur rétt til neinna námslána, ekki einu sinni að hluta. Þetta fyrirkomulag veldur eðlilega kvíða hjá nemendum, einkum í prófatöku, þegar framfærsla fólks er undir, eðlilega. Ástæða þess að lagt er til að miða við 24 einingar, þ.e. 12 einingar á önn, í þessari breytingartillögu er að námsfólk fær ekki atvinnuleysisbætur stundi það nám sem nemur 12 einingum eða fleiri á önn og í núgildandi lögum er lágmarkskrafan til lánsréttar miðuð við 22 einingar. Þarna er sem sagt gat, það er ekkert opinbert kerfi sem grípur námsfólk sem stundar nám og lýkur einingum á þessu einingabili. Það færi betur á að þessi kerfi spiluðu saman. Að mati þeirra sem standa að frumvarpinu sem hér er lagt fram sem breytingartillaga eru þessi skilyrði einfaldlega óþarflega ströng og réttara að miða við 24 eininga námsframvindu á ári og líkt og áður þá myndi fjárhæð grunnframfærslu einfaldlega skerðast hlutfallslega miðað við námshlutfall líkt og verið hefur.
Þá er mælt fyrir þeirri nýjung í b-lið 2. liðar í breytingartillögunni að norskri fyrirmynd að hægt sé að fá greitt út fullt námslán þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði um lágmarksnámsframvindu. Sem dæmi má nefna að ef námsmaður skráir sig í 30 eininga nám á einni önn og lýkur aðeins 20 getur hann eftir sem áður fengið námslán miðað við 30 einingar, þær tíu einingar sem út af standa yrðu þá skráðar. Þessi heimild takmarkast við 60 útistandandi einingar að hámarki. Með breytingunni yrði enn hvati í kerfinu til að ljúka námi á réttum tíma eins og var meginmarkmið breytinganna 2020, því annars fengi námsmaðurinn ekki afskrifaðan hluta lána sinna sem styrk. Það er því engin ástæða til að ætla að fólk nýti sér þessa heimild nema nauðsyn krefji.
Í 3. lið breytingartillögunnar er síðan lagt til að hækka styrkhlutfall lána úr 30% í 40% að gefnum þeim skilyrðum sem lögin setja. Í Noregi er námsstyrkur veittur í formi 25% niðurfellingar á höfuðstóli láns í lok hverrar annar í hlutfalli við fjölda þreyttra eininga, til viðbótar síðan við 15% niðurfellingu við námslok. Markmiðið með breytingunni er að með þeim hætti færist kjör íslenskra námsmanna nær því sem tíðkast í nágrannalöndunum, sem aftur var nú yfirlýst markmið ráðherrans sem lagði fram það frumvarp sem varð að lögum um Menntasjóð námsmanna. Hér ber svo við að ólíkt flestum breytingartillögum sem lagðar eru fram við 1. umræðu þá er búið að kostnaðarmeta þennan lið. Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna þessa 3. liðar breytingartillögunnar er áætlaður um 1,2 milljarðar kr. Við lítum hins vegar á það sem sjálfsagða fjárfestingu í því að fólk, hvað eigum við að segja, geti hlaupið hraðar eftir útskrift, sé í betri færum að takast á við lífið, ekki með sama skuldaklafa og ella; sjálfsagður stuðningur ríkissjóðs við fólk þegar það er að hefja lífið að loknu námi.
Loks er í 4. tölulið breytingartillögunnar lagt til að auka sveigjanleika til niðurfellingar námslána, þannig að það sé heimilt að fella þau niður vegna verulegra fjárhagsörðugleika, alvarlegra og varanlegra veikinda eða annarra sérstakra ástæðna. Hugmyndin með þessu er að koma til móts við þær kvartanir sem komu í ljós þegar við áttum samráð við stúdenta. Það var ítrekað kvartað undan því að ýmis ófyrirséð atvik eins og slæm veikindi — það er þannig að þegar þau koma upp í kerfinu eins og það er í dag þá hefur sjóðurinn einfaldlega ekki nægilegt svigrúm til að taka tillit til aðstæðna og fella niður skuldir. Til þess er þessi sveigjanleiki hugsaður. Svo mætti svo sem alveg taka umræðu um það hvernig Menntasjóðurinn nálgast skuldara og gengur oft ansi hart á eftir þeim sem eru í vanskilum, eiginlega af furðulega furðumikilli hörku miðað við það að vera í rauninni félagsleg fjármálastofnun, það sést ekki alltaf á innheimtuaðgerðum, en ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara út í þá sálma.
Ég hef hér gert stuttlega grein fyrir breytingartillögu sem liggur hér fyrir við frumvarpið við 1. umræðu þess og bind miklar vonir við að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki vel í þær hugmyndir sem í henni birtast. Þær eru skynsamlegar. Þær eru byggðar á samtali við námsmenn. Þær eru þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að kerfið taki fólki betur.