154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Vantrauststillaga Flokks fólksins og Pírata snerist upp í andhverfu sína og varð að sterkri traustsyfirlýsingu við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og í raun stórsigur. Framsögumaður tillögunnar, formaður Flokks fólksins, dæmdi hana sjálf óþarfa og sagði hana falla áður en hún kæmi til atkvæðagreiðslu. Til hvers var þá lagt í þá vegferð að trufla þingstörfin með óþarfa tillöguflutningi sem í lokin varð traustsyfirlýsing á ríkisstjórnina? Þá vil ég segja eins og er, virðulegi forseti, að framsaga og umræða minni hlutans um vantraustið var fyrir neðan allar hellur og raunar afar vanstillt og á lágu plani. Þar var gengið nærri persónu ráðherra með harkalegum ásökunum og náði engri átt að mínu mati. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur aðeins verið við völd í nokkra daga og hefur ekki náð að sýna hvað í henni býr en við berum miklar væntingar um starfsama stjórn þar sem menn vinna saman að þeim málum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um að ljúka fyrir lok kjörtímabilsins. Það var því ekki nauðsynlegt að eyða tíma Alþingis á þessari stundu til að samþykkja sterka stuðningsyfirlýsingu við ríkisstjórnina áður en hún hefur sýnt frekar á spilin. Ég hef fulla trú á því að ríkisstjórnin muni spila sóknarbolta og við skulum sjá hvort hún skori ekki fljótlega mörk og sýni hvað í henni býr.

Það var sérstök upplifun að hlusta á minni hlutann í þinginu, hvernig þingmenn hans ræða um lífskjör á Íslandi. Þrátt fyrir að við öll köllum eftir lægri vöxtum og verðbólgu þá hefur þjóðin sjaldan haft það betra. Í öllum samanburði er hagvöxtur á Íslandi langt umfram það sem þekkist í öðrum löndum og kaupmátturinn hér með því besta sem gerist í heiminum. Verkefnið er að ráðast gegn verðbólgu og háum vöxtum. Með þeim árangri skorar ríkisstjórnin mörk.

Virðulegi forseti. Niðurstaða vantrauststillögunnar er stórsigur fyrir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem hefur að baki sér sterkan þingmeirihluta úr síðustu þingkosningum. Verk okkar verða lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabilsins á næsta ári. Það er hinn endanlegi dómur á störf þingmanna og ríkisstjórna.