154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

tekjustofnar sveitarfélaga.

1069. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga frá umhverfis- og samgöngunefnd um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, Römpum upp Ísland. 1. gr. er svohljóðandi:

„Í stað orðanna „50 millj. kr. árlega á árunum 2022–2025“ í ákvæði til bráðabirgða XXVI í lögunum kemur: 100 millj. kr. á árinu 2024.“

2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég mun sömuleiðis kynna meðfylgjandi greinargerð sem er knöpp og gagnorð.

Frumvarp þetta er lagt fram að tillögu innviðaráðuneytis og hefur þann tilgang að veita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimild til að veita framlög vegna verkefnisins Römpum upp Ísland hraðar en áður var áformað. Með lögum nr. 84/2022 bættist bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, sem mælir fyrir um heimild fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að ráðstafa framlagi úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að upphæð 50 millj. kr. árlega á árunum 2022–2025 til verkefnisins Römpum upp Ísland. Tilgangur laganna var að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi með því að koma upp römpum eða tryggja aðgengi með öðrum hætti.

Sú staða er uppi að verkefnið hefur gengið hraðar og betur en áætlað var. Búast má við því að rampur nr. 1.500 verði tekinn í notkun í lok árs 2024, en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að rampur nr. 1.000 yrði kominn í notkun í lok árs 2025. Þar sem bráðabirgðaákvæði XXVI í lögum um tekjustofna sveitarfélaga mælir fyrir um að heildarframlaginu skuli dreift á fjögur ár, þ.e. 50 millj. kr. á ári, samtals 200 millj. kr., er talið rétt að veita jöfnunarsjóði skýra lagaheimild til að flýta greiðslum til að tryggja framgang verkefnisins. Er því lögð til sú breyting á ákvæðinu að heimild til framlags jöfnunarsjóðs fyrir árið 2025 verði færð til ársins 2024.

Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til þess að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á úthlutunarheimildum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem munu hafa jákvæð áhrif á aðgengismál fatlaðs fólks. Frumvarpið hefur hvorki áhrif á heildartekjur eða heildarútgjöld Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga né útgjöld eða tekjur sveitarfélaga í heild þar sem gert er ráð fyrir að eftirstöðvar framlagsins sem veitt verður til verkefnisins verði hluti af þeim framlögum sem þegar eru veitt úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á grundvelli 1. og 2. mgr. 13. gr. b laga um tekjustofna sveitarfélaga. Fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á ríkissjóð eru engin.