154. löggjafarþing — 105. fundur,  30. apr. 2024.

húsnæðisbætur.

1075. mál
[18:14]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016. Það er gott og það er táknrænt að mæla fyrir þessu máli sem skiptir miklu máli fyrir alþýðufólk þessa lands kvöldið fyrir baráttudag verkalýðsins, 1. maí, daginn sem verka- og láglaunafólk gerði að sínum degi í þeim tilgangi að fólk fengi tækifæri til að sýna samstöðu, leggja fram kröfur um samfélagsleg umbótamál til þeirra sem völdin hafa og til þeirra sem auðinn hafa.

Ég hef þá staðföstu skoðun að sterk verkalýðshreyfing sé grundvallarforsenda fyrir velsæld almennings í lýðræðisríki, hvort sem er í fortíð, í nútíð eða framtíð og hin eilífa barátta, stéttabaráttan milli verkalýðsins og eigenda framleiðslutækjanna — sem hefur víða í löndunum í kringum okkur farið þannig að almenningur hefur farið halloka og hlutfall verðmætasköpunar sem rennur í skaut vinnandi fólks hefur dregist saman, þá hefur það ekki verið staðreyndin hér á Íslandi og ég hef raunar þá trú að á meðan aðild að verkalýðsfélögum er almenn, á meðan kjarasamningar skila raunverulegum kjarabótum, muni þetta ekki verða reyndin hér. Þetta er mikilvægt til að halda samhengi hlutanna til haga.

Við sjáum það aukinheldur á opinberum tölum að tekjujöfnuður á Íslandi hefur farið vaxandi í tíð núverandi ríkisstjórnar sem greining Hagstofunnar á þróun svokallaðs Gini-stuðuls sýnir líka síðustu ár. Þar skipta miklu máli umbætur á tilfærslukerfunum og tekjuskatti sem voru gerðar vegna lífskjarasamninga. Ég hef einnig þá trú að þær umbætur sem nú eru í farvatninu og eru gerðar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem nýlega voru undirritaðir, muni hafa sambærileg áhrif til lengri tíma, þ.e. að bæta kjör þeirra sem minnstar tekjur hafa. Þetta frumvarp er eitt af þessum skrefum. Til viðbótar því frumvarpi sem hér er mælt fyrir eru fjölmargar aðgerðir sem munu skila sér í umbótum. Eitt þeirra eru gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hækkanir á barnabótum, sérstakur vaxtastuðningur á þessu ári og þannig mætti áfram telja. Frumvarpið er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum á vinnumarkaði sem kynntar voru 7. mars 2024 og nefndar voru hér áðan. Þessir kjarasamningar eru að mörgu leyti tímamótasamningar þar sem samið er til langs tíma með það að markmiði að skapa skilyrði fyrir vaxandi velsæld, skilyrði fyrir auknum kaupmætti og skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta ekki síst.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er m.a. kveðið á um að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta skuli hækka um 25% og að aukið tillit verði tekið til fjölskyldustærðar þannig að húsnæðisbætur verði greiddar fyrir allt að sex í heimili í stað fjögurra áður.

Í fyrsta lagi er lagt til að við útreikning húsnæðisbóta skuli taka aukið tillit til fjölda heimilisfólks þannig að grunnfjárhæðir og frítekjumörk vegna húsnæðisbóta taki til allt að sex í heimili í stað fjögurra áður og þannig verði bætt við tveimur flokkum af grunnfjárhæðum húsnæðisstuðnings vegna fimm eða sex í heimili og einnig verði hærri frítekjumörk vegna heimila þar sem búa fimm eða sex.

Í öðru lagi er lagt til að grunnfjárhæð húsnæðisbóta til einstaklingsheimila hækki um 25% frá því sem nú gildir og aðrar grunnfjárhæðir hækki til samræmis við stuðla í a-lið 1. gr. Þá er lagt til að skerðingarmörk vegna eigna hækki í 12,5 millj. kr. en þau eru átta milljónir í dag. Þannig munu húsnæðisbætur ekki falla niður fyrr en samanlagðar heildareignir heimilis ná 20 millj. kr.

Í þriðja lagi er lagt til að gerð verði breyting á stuðlum þannig að í stað sjö aukastafa verði tveir aukastafir en stuðlarnir eru notaðir til útreikninga á grunnfjárhæðum húsnæðisbóta. Markmið breytinganna er að styðja við fjögurra ára kjarasamninga á vinnumarkaði, að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda.

Verði frumvarpið samþykkt er gert ráð fyrir að útgjöld vegna húsnæðisbóta hækki um 2,3–2,5 milljarða á ári og um 9 milljarða alls á gildistíma kjarasamninganna. Þannig munu húsnæðisbætur til fólks í sambúð með tvö börn og tekjur undir 1,4 millj. kr. á mánuði hækka um 206.000 kr. á ári. Húsnæðisbætur til einstæðs foreldris með eitt barn og 700.000 í mánaðartekjur munu hækka um 165.000 á ári og um 190.000 ef tvö börn eru á heimilinu. Breytingarnar munu einnig gagnast barnmörgum fjölskyldum þar sem tekið verður tillit til fleiri í heimili við útreikning á grunnfjárhæðum auk þess sem frítekjumörk munu hækka í samræmi við fjölda íbúa á heimilinu. Þannig gat fólk í sambúð með fjögur börn fengið að hámarki 817.912 kr. í húsnæðisbætur á ári en mun geta fengið allt að 1.194.628 kr., sem nemur hækkun um 376.716 kr.

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að fagna þessum breytingum þar sem þær eru í eðli sínu réttlátar. Það er réttlátt að styðja barnmargar fjölskyldur á leigumarkaði betur, að draga úr mismunun í samfélaginu, auka réttlæti og jöfnuð. Þær færa 9 milljarða kr. til fólks með lægri tekjur á tímabili kjarasamninganna og stuðla þar með að aukinni velferð og auknum jöfnuði í íslensku samfélagi. Ég árétta það sem sagt var hér í byrjun minnar framsögu að það er við hæfi að mælt sé fyrir þessu máli hér daginn fyrir 1. maí.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umræðu.