154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

rannsókn vegna örlætisgernings ríkislögreglustjóra.

[15:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Eins og ég skil þetta þá er það héraðssaksóknari sem ákveður þetta. Burt séð frá því hvaða saksóknari það er þá er ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beina því til héraðssaksóknara vegna þess að þegar héraðssaksóknari spurði hvort það væri rannsókn í gangi þá sagði hann að engri slíkri beiðni hefði verið beint til þeirra. Ég hlýt að spyrja, bara fyrir hönd ríkissjóðs vegna þess að ráðherrann vísar til þess að það skipti máli að það sé vel farið með almannafé, hvort það sé ekki tilefni til aðgerða þegar í ljós kemur að þarna er búið að gefa án heimildar skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs og það má alveg velta upp þeirri spurningu hvort það hafi verið gert með saknæmum hætti. Ég spyr hvort það sé ekki ástæða af hálfu ráðherra að gera það. Við skulum muna það líka að þetta er sami maður, virðulegi forseti, og sagði þegar starf hans var undir, með leyfi forseta: (Forseti hringir.) „Það er efni í sérstakt viðtal ef til starfsloka kemur vegna þessara ásakana. Það myndi kalla á annað og dýpra viðtal um það sem hefur gengið á á bak við tjöldin.“ (Forseti hringir.) Er ekki ástæða til að rannsaka þetta nánar, hæstv. ráðherra?