flutningur venesúelskra ríkisborgara aftur til Venesúela .
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að við erum hér með töluvert stóran hóp ríkisborgara frá Venesúela sem hefur fengið synjun um dvöl hér á Íslandi og ber að yfirgefa landið. Það er líka töluverður fjöldi umsókna sem á eftir að afgreiða frá þessum hópi, bæði hjá Útlendingastofnun sem og kærunefnd útlendingamála. Í september á síðasta ári þá hóf kærunefnd útlendingamála að staðfesta þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að synja ríkisborgurum frá Venesúela um vernd hér á landi. Í framhaldi af því fór Útlendingastofnun í gríðarmikinn undirbúning til að tryggja farsæla heimför sem flestra og flugvél fór í beinu flugi héðan til Karakas í nóvember. Það flug gekk vel og síðan þá hefur Útlendingastofnun verið í samtali við m.a. Frontex og IOM til að tryggja farsælan heimflutning fólks aftur. Það hefur ekki gengið á þeim hraða sem við ætluðum. Það var minn vilji að það færi annað flug í desember, sem varð ekki niðurstaðan, og við erum að horfa til þess að geta tryggt fólki flutning. Þá vil ég árétta að þetta er sjálfviljug brottför þessara ríkisborgara.