framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.
Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavík. Frumvarpið miðar að því að lögfesta nauðsynlegar heimildir til að unnt verði að skipa sérstaka tímabundna framkvæmdanefnd til að fara með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða og hafa heildaryfirsýn með málefnum Grindavíkurbæjar vegna þeirra margvíslegu úrlausnarefna í sveitarfélaginu sem tengjast yfirstandandi jarðhræringum á svæðinu.
Málefni samfélagsins í Grindavík hafa verið viðfangsefni stjórnvalda allt frá því að ákveðið var að rýma Grindavík vegna ákafrar jarðskjálftahrinu að kvöldi 10. nóvember sl. Var þessi ákvörðun tekin í ljósi þess að skýr merki voru um myndun kvikugangs sem talið var mögulegt að gæti náð allt til Grindavíkur. Á þessum tíma voru 1.120 heimili skráð í Grindavík, samtals með 3.730 íbúa. Eldgos hófst svo nánast fyrirvaralaust í Sundhnúk. Síðan hafa orðið eldgos í janúar, febrúar og gos sem hófst þann 16. mars stendur í raun enn. Mikið tjón hefur orðið á fasteignum og innviðum í Grindavík, auk innviða veitufyrirtækja og á vegakerfi af völdum þessara jarðfræðinga. Staðan nú er sú að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram þrátt fyrir yfirstandandi eldgos. Hætta er á að þróunin verði sú að núverandi gos aukist verulega eða að til komi nýir atburðir, svipaðir þeim sem hafa orðið, með kvikuhlaupi og hugsanlegu eldgosi.
Aðdragandi að gerð frumvarpsins er sá að þann 19. apríl sl. barst ráðuneytinu ósk frá bæjarstjórn Grindavíkurbæjar um samtal við ríkisstjórn um stjórnarfyrirkomulag við þær óvenjulegu og krefjandi aðstæður sem nú eru í Grindavík. Markmið þess væri að leita leiða til að tryggja að vinna við verkefni tengd Grindavík á næstu mánuðum færi fram samkvæmt skýrri forgangsröðun aðgerða og byggðist á skýrum sameiginlegum markmiðum. Eins og áður segir hefur orðið mikið tjón nú þegar á húseignum og innviðum í Grindavíkurbæ, þar með altjón á fjölmörgum fasteignum. Þá eru nær allir innviðir í Grindavíkurbæ laskaðir með einhverjum hætti og/eða óstarfhæfir eða í hættu á að verða fyrir frekari skemmdum, m.a. gatnakerfi, lagnir fyrir rafmagn, kalt og heitt vatn og fráveitukerfi, auk fjarskiptakerfa. Allt eru þetta viðfangsefni sem ætla má að séu hefðbundinni sveitarstjórn ofviða að sinna án mikils stuðnings og fyrir liggur að um viðvarandi ástand til einhvers tíma er að ræða. Brýnt er að styðja við stjórnsýslu sveitarfélagsins við þessar aðstæður en hún tekst nú á við fordæmalaust verkefni sem snýr ekki síst að íbúum og grunnþörfum þeirra, þjónustu við börn og aldraða og húsnæðismálum, svo að fátt eitt sé nefnt. Frá 10. nóvember á síðasta ári hefur allri starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins verið sinnt frá Reykjavík og engin hefðbundin þjónusta verið í boði fyrir íbúa og fyrirtæki í bænum. Um er að ræða eitt umfangsmesta verkefni vegna náttúruhamfara sem stjórnvöld hafa tekist á við.
Á undanförnum mánuðum hefur embætti ríkislögreglustjóra annast tiltekin nauðsynleg verkefni í þágu samfélagsins í Grindavík með það að markmiði að draga úr verulegu eignatjóni og afleiðingum áfallsins. Aðkoma embættisins að verkefnunum hefur m.a. verið grundvölluð á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, og neyðarrétti. Kostnaðurinn vegna framangreindra verkefna til að vernda öryggi íbúa, atvinnustarfsemi og innviði Grindavíkurbæjar og vegna mótvægisaðgerða hleypur nú þegar á milljörðum króna. Við slíkar aðstæður er enn meiri þörf á samhæfingu krafta allra þeirra aðila sem að verkefninu koma. Frumvarp það sem hér er mælt fyrir er mikilvæg viðbót við fjölþættar aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til af hálfu opinberra aðila og hafa komið til kasta Alþingis fyrr í vetur. Má þar m.a. nefna lagasetningu um sérstakan húsnæðisstuðning, lög um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara og margt fleira. Þá hafa innviðaráðuneytið og sveitarstjórn Grindavíkurbæjar gert með sér samkomulag um stuðning við stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli VII. kafla sveitarstjórnarlaga og mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veita sveitarfélaginu styrk, að fengnum umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Virðulegi forseti. Það fordæmalausa frumvarp sem hér liggur fyrir gengur út frá einni tiltekinni grundvallarforsendu sem skiptir miklu máli að nefna hér í þessari framsögu. Það er forsendan um að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélagsins. Málið er samið í innviðaráðuneytinu í góðu samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur, auk samráðs við hlutaðeigandi ráðuneyti og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdanefndin komi í stað sveitarstjórnar þó að nefndinni verði falin afmörkuð og skilgreind verkefni sem annars myndu heyra undir sveitarfélagið. Gengið er út frá því að sveitarstjórn Grindavíkurbæjar starfi náið með nefndinni að einstökum verkefnum þegar það á við. Sveitarstjórn mun áfram starfa á grundvelli sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn sveitarfélagsins. Hún ber áfram ábyrgð á lögbundnum verkefnum sínum og einnig ólögbundnum verkefnum sem hún starfrækir á grundvelli 7. gr. sveitarstjórnarlaga og óskráðra meginreglna sveitarstjórnarréttar, nema að því leyti sem framkvæmdanefnd hafa sérstaklega verið falin slík verkefni á grundvelli ákvæða frumvarpsins. Þessi skil milli verkefna sveitarfélagsins og framkvæmdanefndarinnar eru afar mikilvæg og eins að þau séu skýr í hverju skrefi.
Einstök ákvæði frumvarpsins skýra sig að mestu leyti sjálf. Í frumvarpinu er farin sú leið að telja upp í 3. gr. þau sérstöku verkefni sem falin verða nefndinni. Þetta var mikilvægur þáttur í því að öllum væri ljóst hvert markmiðið með málinu væri. Í því felst að nefndin taki alfarið við stjórn, skipulagningu og framkvæmd þeirra verkefna sem talin eru upp út starfstíma nefndarinnar, nema ný ákvörðun sé tekin. Þó er ljóst að í ljósi þeirrar óvissu sem er uppi um framvindu atburða, jarðhræringa, eldvirkni o.s.frv., og afleiðinga þeirra getur slík talning aldrei orðið tæmandi. Þess vegna geyma ákvæði frumvarpsins einnig heimild til handa bæjarstjórn Grindavíkur til að ákveða í samþykkt sveitarfélagsins að færa með sinni ákvörðun ábyrgð á lögbundnum verkefnum til framkvæmdanefndarinnar, að fengnu samþykki viðkomandi fagráðuneyta, með þeim hætti sem síðan er nánar lýst í frumvarpinu. Þá hefur ráðherra einnig heimild, í samráði við Grindavíkurbæ, að fela framkvæmdanefnd að samhæfa aðgerðir og önnur tiltekin verkefni. Þannig er framkvæmdanefndin stödd, má segja, við hlið sveitarstjórnarinnar en á vegum ráðuneytanna og undir innviðaráðuneyti.
Það er ástæða til að taka sérstaklega fram að yfirfærsla verkefna til framkvæmdanefndar á grundvelli frumvarpsins haggar ekki hlutverki stjórnvalda eða almannavarnakerfisins samkvæmt lögum um almannavarnir og öðrum lögum eftir því sem við á. Það á til að mynda við ef atburður verður sem leiðir til þess að nauðsynlegt er að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða eða bráðaviðbragða til að varna tjóni. Í 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um að framkvæmdanefndin skuli í samráði við sveitarstjórn Grindavíkurbæjar vinna að aðgerðaáætlunum til styttri og lengri tíma vegna þeirra verkefna sem falla undir hana þar sem m.a. skal fjallað um einstakar aðgerðir, áætlaðan kostnað og kostnaðarskiptingu milli ríkisins og sveitarfélagsins. Aðgerðaáætlanir nefndarinnar skuli m.a. taka til eftirfarandi verkefna sem fram kemur í ákvæðinu.
„a. Verkefna sem tengjast skóla- og frístundastarfi, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa og stuðningi á sviði húsnæðis- og vinnumarkaðsmála.
b. Viðhalds, viðbúnaðar, bráðaviðgerða og annarra framkvæmda vegna innviða og jarðvegs.
c. Endurreisnar og uppbyggingar samfélagslegra verðmæta sveitarfélagsins.“
Gert er ráð fyrir því að framkvæmdanefnd leggi tillögur fyrir ráðherra um fjármögnun verkefna á grunni framangreindra aðgerðaáætlana og kostnaðarskiptingar milli ríkisins og Grindavíkurbæjar. Skal sú tillaga m.a. taka mið af afstöðu bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar, fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og hvar ábyrgð á viðkomandi verkefni lá áður en verkefnið var falið nefndinni. Það er auðvitað ljóst að horfur í rekstri bæjarins eru afar neikvæðar vegna náttúruhamfaranna og ekki er gert ráð fyrir því að fjárhagsleg aðkoma Grindavíkurbæjar verði meiri en sveitarfélagið ræður við og þarf nefndin að horfa til þess í tillögugerð sinni. Tillögur nefndarinnar öðlast gildi með samþykki ráðherra og er sveitarfélagið bundið af samþykktri aðgerðaáætlun þegar hún liggur fyrir.
Virðulegi forseti. Það er ljóst að við erum hér að tala um frumvarp á algjörlega fordæmalausum tímum og ber að halda því til haga að frumvarpið ber þess nokkurt merki. Það má að sönnu kalla það nýsköpun í lagasmíð þegar kemur að samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það er einlæg von mín að þessi nýsköpun, sem snýst um að sýna í fordæmalausri lagasetningu að samfélagið stendur saman þegar á reynir, að vel takist til um framkvæmd þess.
Það er alveg ljóst að í frumvarpi sem þessu er ekki hægt að róa fyrir allar víkur. Það munu koma upp álitamál, vangaveltur o.s.frv. eftir því sem framkvæmdinni vindur fram. En ég legg á það áherslu og það er mín einlæga von að hér eftir sem hingað til sýnum við úr hverju okkar samfélag er gert við það mótlæti sem Grindvíkingar hafa þurft að horfast í augu við og að sú seigla og það úthald sem Grindvíkingar hafa sýnt — að við hlaupum undir bagga með þeim á þessum flóknu tímum.
Mig langar líka hér í lokin á framsögu minni að þakka fyrir góðar undirtektir þingheims við bæði framlagningu þessa máls en ekki síður afgreiðslu annarra þeirra mála sem við höfum komið með inn í þingið vegna þessara mála og árétta þá afstöðu mína hversu mikilvægt það er að framkvæmdanefndin, eins og hún verður samansett, eigi í góðu samstarfi og samráði við Alþingi. Það gætu verið þingmenn kjördæmisins, formenn þingflokka, fulltrúar umhverfis- og samgöngunefndar eða með öðrum þeim hætti sem þingnefndin ákveður og getur náð að formgera í nefndaráliti við afgreiðslu málsins en það er afar mikilvægt að Alþingi sé haldið upplýstu og sé með í ráðum í hverju skrefi.
Loks vil ég nefna, vegna þess að við höfum haft þann háttinn á og þekkjum það því miður of vel, eins og í gegnum viðbrögð við Covid á sínum tíma, mikilvægi þess að hv. fjárlaganefnd sé líka höfð með í ráðum, minnug þess á hverjum degi að fjárstjórnarvaldið er hjá Alþingi, að við þurfum að sækja heimildir til Alþingis séu þær umfram það sem þegar er ráð fyrir gert í fjárlögum.
Ég legg til að frumvarpinu verði nú að lokinni 1. umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.